Ódýrasta flugið til London og Kaupmannahafnar í maí ekki verið lægra

london louis llerena

Vorfargjöldin á niðurleið en minni sveiflur í sumarfjargjöldunum. Ef stefnan er sett á heimsókn til höfuðborga Bretlands og Danmerkur eftir fjórar vikur þá kostar farið þangað í dag miklu minna en fyrir fjórum árum. Minni sveiflur í sumarfargjöldunum.
Sá sem pantar í dag flugsæti frá Íslandi til London eftir fjórar vikur getur fundið farmiða sem kostar 43 prósent minna en sá sem var í sömu sporum fyrir fjórum árum síðan. Þá bauð easyJet best eða 39.921 kr. fyrir miða báðar leiðir. Breska lággjaldafélagið er aftur í dag ódýrasti kosturinn en núna kostar farmiðinn með félaginu 22.317 krónur. Fargjöld Icelandair og WOW hafa einnig farið lækkandi á milli ára eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan. 
Ódýrustu miðarnir til Kaupmannahafnar upp úr miðjum maí (vika 20) eru líka mun hagstæðari í dag en þeir voru vorið 2012. Þá kostaði minnst með Iceland Express eða 45.558 kr. en í dag er lægsta fargjaldið nærri 29 þúsund krónur með WOW air. Athygli vekur að ódýrustu miðarnir með Icelandair til Kaupmannahafnar eftir fjórar vikur eru þriðjungi ódýrari en þeir voru 19. apríl 2012. Þróun fargjalda til Óslóar er önnur en almennt hefur verð þangað líka lækkað.

Minni eftirspurn á vorin

Frá því að Túristi hóf að fylgjast með farmiðaverði á þessum þremur flugleiðunum í ársbyrjun 2012 þá hafa flugfélögin öll aukið tíðni ferða til borganna þriggja og ný félög bæst í hópinn. Nú síðast SAS með daglegu flugi hingað frá Kaupmannahöfn. Fjöldi ferða í maí er álíka mikill og í sumar en þá er hins vegar mun meiri eftirspurn eftir flugsætum og þá eru líka fargjöldin mun hærri eins og sjá má á neðra grafinu hér fyrir neðan. Ódýrustu farmiðarnir hjá British Airways og easyJet til London um miðjan júlí kosta t.d. meira en tvöfalt meira þá en núna í maí. Fargjöldin hjá Icelandair og WOW til London og Kaupmannahafnar eru líka mun hærri í júlí en í maí. 
Þess ber að geta að farangursgjöld eru tekin með inn í farmiðaverðið í könnunum Túrista.