Ýmislegt sérkennilegt við útboð á farmiðum

fle 860

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda vonast til að næsta útboð á farmiðakaupum ríkisins takist betur. Þrátt fyrir stóraukin umsvif erlendra flugfélaga hér á landi þá tók ekkert þeirra þátt í útboði á farmiðakaupum Stjórnarráðsins. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að ýmsir hnökrar hafi verið á framkvæmdinni. 
Níu flugfélög bjóða upp á áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli allt árið um kring en aðeins eitt þeirra, WOW air, skilaði inn tilboði í báða hluta útboðs á farmiðum fyrir starfsmenn ráðuneytanna sem lauk í síðustu viku. Icelandair tók eingöngu þátt í seinni flokki útboðsins en öll erlendu flugfélögin sátu hjá þó samtals fljúgi þau til sex af þeim tíu áfangastöðum sem tilgreindir voru í útboðinu. Talskona SAS, sem býður upp á daglegar ferðir héðan til Óslóar og Kaupmannahafnar, sagði í viðtali við Túrista að erfitt hafi verið að koma til móts við kröfurnar sem gerðar voru í útboðslýsingunni, t.d. um sólarhrings neyðarþjónustu á íslensku. Þess ber að geta að Ríkiskaup gerðu breytingu á þessari kröfu síðar meir og heimiluðu þá einnig símaþjónustu á ensku.

Hefði útilokað alla nema Icelandair

Félag atvinnurekenda hefur lengi lagt áherslu á að haldið yrði útboð á farmiðum en það var síðast gert í ársbyrjun 2011. „Við fögnum því út af fyrir sig að útboð skuli hafa farið fram eftir rúmlega þriggja ára samfelld brot ríkisins á lögunum um opinber innkaup. Hins vegar var ýmislegt sérkennilegt við það hvernig útboðinu var stillt upp í upphafi. Til að byrja með var til dæmis gerð sú krafa að til að mega bjóða fast verð í flug til helztu áfangastaða yrðu flugfélög að fljúga til þeirra allra; Brussel, Parísar og Kaupmannahafnar. Það hefði útilokað aðra en Icelandair. Eftir að gerðar voru athugasemdir við þetta, var fallið frá þessu skilyrði,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, í svari til Túrista. „Upphaflega skilyrðið um að hafa íslenzkumælandi þjónustufulltrúa til taks allan sólarhringinn var líka sérkennilegt. Ef stjórnarráðið treystir starfsfólki sínu til að fara á fundi í útlöndum hlýtur því líka að vera treystandi til að tala við þjónustufulltrúa flugfélags á öðru tungumáli en íslenzku.“

Fast verð í stað afsláttar

Að mati Ólafs þá eru útboðslýsingar í opinberum útboðum oft þannig úr garði gerðar að þær þrengja hópinn sem getur tekið þátt og þar af leiðandi nýtast ekki kostir samkeppninnar til að ná sem hagstæðustu verði fyrir skattgreiðendur. „Það má líka setja spurningarmerki við að ríkið vilji bara fá fast verð í þrjár flugleiðir, en biðji um afsláttarkjör á öðrum. Svipuð leið var farin í síðasta flugmiðaútboði árið 2011. Kærunefnd útboðsmála komst þá að þeirri niðurstöðu að hafna hefði átt tilboði Icelandair í viðskiptin, þar sem það væri augljóslega svo miklu óhagstæðara en tilboð Iceland Express. Það segir sig sjálft að það er hagstæðara fyrir skattgreiðendur að ríkið fái tilboð um fast, lágt verð á tilteknum flugleiðum en að í boði sé afsláttur frá háu verði.“
Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu í febrúar sl. kom fram að öll önnur farmiðaviðskipti hins opinbera verði boðin út á næstunni. „Þá er tækifæri til að læra af reynslunni og lagfæra það sem misfórst í þessu útboði“, bætir Ólafur við.