WOW setur app í loftið

Íslensku flugfélögin hafa verið sein til að tileinka sér apptæknina en brátt geta farþegar WOW sótt sér þess háttar forrit. Breytingar á reglum um handfarangur eru einnig í pípunum.

wow app

Af þeim flugfélögum sem bjóða upp á áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli, allt árið um kring, eru það aðeins íslensku félögin sem ekki hafa hleypt af stokkunum sérstöku snjallsímaforriti. WOW air mun hins vegar á næstunni bæta úr því og verður þá fyrst íslenskra flugfélaga til að bjóða upp á símaapp. Að sögn Engilberts Hafsteinssonar, markaðsstjóra WOW, mun forritið nýtast við innritun í flug, pantanir á ferðum og þjónustum, breytingar á bókunum og eins til að halda utan um ferðaáætlanir. Engilbert segir þessa tækni vera einfalda og hagkvæma leið til að bæta þjónustu við ört stækkandi farþegahóp WOW air. Aðspurður hvort hann telji að margir muni nýta sér forritið til að panta flug segir Engilbert að fyrst um sinn sé tilgangurinn með þessari viðbót að þjónusta þá sem hafa þegar keypt flug. „En við höfum mikla trú á að bókanir í gegnum appið muni aukast mjög hratt.“

Breytingar á handfarangursreglum

Haustið 2014 hóf WOW air að rukka aukalega fyrir handfarangur sem er þyngri en 5 kíló en að sögn Engilberts verður þessum reglum breytt á næstunni. Takmörkun á þeim farangri sem taka má með sér inn í farþegarýmið muni þá liggja í stærð og fjölda en ekki þyngd eins og í dag. WOW er ekki eina flugfélagið á Keflavíkurflugvelli með strangari handfarangursreglur en gerist og gengur því farþegar Wizz Air verða að borga sérstaklega fyrir töskur sem ekki komast undir sætin fyrir framan þá. Reglur bandaríska lággjaldaflugfélagsins Spirit eru sambærilegar en fyrrum forstjóri félagsins tók nýverið sæti í stjórn WOW air og það er því ekki ólíklegt að íslenska lággjaldaflugfélagið feti í fótspor Wizz Air og Spirit.

Sjálfsinnritun að hefjast

Hingað til hafa farþegar WOW hér á landi og víða annars staðar aðeins getað innritað sig í flug með gamla laginu en á næstu vikum mun flugfélagið bjóða upp á innritun í gegnum sjálfsafgreiðslustöðvar á flestum áfangastöðum og líka á Keflavíkurflugvelli. Á sama tíma mun farþegum WOW einnig standa til boða netinnritun og eins nýtist hið fyrrnefnda símaapp til að skrá sig í flug. Með þessum nýju valkostum mun bið við afgreiðsluborð WOW air í Leifsstöð væntanlega styttast og á sama tíma ætti að draga úr mannfjöldanum í innritunarsal flugstöðvarinnar því WOW stendur undir um það bil einni af hverju sex flugferðum þaðan. Forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar hafa lagt áherslu á að fleiri flugrekendur bjóði upp á sjálfsinnritun því það bæti afköstin í flugstöðinni en sárafá flugfélög hafa nýtt sér sjálfsafgreiðslustöðvarnar sem þar eru.
Þess má geta að eitt flugfélag á Keflavíkurflugvelli, Wizz Air, rukkar farþega sína aukalega um 10 evrur (um 1400 kr.) ef þeir innrita sig ekki sjálfir í flug félagsins.