Aldrei fleiri Íslendingar til útlanda á fyrsta þriðjungi ársins

kef farthegar

Misserin fram að hruni urðu utanferðir Íslendinga mun tíðari en áður en ferðagleðin núna er álíka mikil ef ekki meiri. Misserin fram að hruni urðu utanferðir Íslendinga mun tíðari en áður en ferðagleðin núna er álíka mikil ef ekki meiri.
Fyrstu fjóra mánuði ársins innrituðu rúmlega 138 þúsund íslenskir farþegar sig í flug á Keflavíkurflugvelli og hafa þeir aldrei verið svo margir á þessu tímabili. Gamla metið var frá árinu 2008 þegar Íslendingarnir voru rúmlega eitt þúsund færri samkvæmt talningu Ferðamálastofu en verulega dró hins vegar úr ferðunum til útlanda þegar leið á haustið eins og gefur að skilja. Árið 2007 er því ennþá það ár sem flestir íslenskir farþegar fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða nærri 470 þúsund en næst flestir voru þeir í fyrra eða um 450 þúsund. Ef fram fer sem horfir gæti 2016 orðið nýtt metár, til mynda er útlit fyrir að mörg þúsund Íslendingar fari til Frakklands í júní til að styðja við bakið á íslenska karlalandsliðinu og eins eru merki um að framboð á ódýrum farmiðum, utan háannatíma, verði meira í ár en nokkru sinni fyrr.