Stórauka flugið til Íslands

british airways

Eitt stærsta flugfélag Evrópu ætlar að fljúga hingað daglega næsta vetur frá stærsta flugvelli álfunnar. Eitt stærsta flugfélag Evrópu ætlar að fljúga hingað daglega næsta vetur frá stærsta flugvelli álfunnar.
Síðastliðið haust snéri breska flugfélagið British Airways tilbaka til Íslands eftir nokkurra ára hlé hefur síðan þá boðið upp á þrjár ferðir í viku hingað til lands frá Heathrow flugvelli við London. Frá og með lokum október nk. verður ferðunum hins vegar fjölgað og munu þotur breska flugfélagsins þá fljúga daglega til Íslands frá þessari stærsta flughöfn Evrópu. Við Heathrow liggja lendingarleyfi ekki á lausu og eru því mjög verðmæt. Það að British Airways ætli að nýta sjö tíma á viku í flug til Íslands gæti verið vísbending um að Íslandsflugið sé mjög ábatasamt.
Þess má geta að Icelandair býður upp á tvær ferðir á dag til Heathrow.

Óvenjulega hröð aukning

Aðspurður segir Peter Rasmussen, svæðisstjóri British Airways á Norðurlöndum, að það hafi ekki áður gerst hjá félaginu að tíðni ferða á norrænni flugleið sé aukin svona hratt líkt og nú hefur verið gert í fluginu til Íslands. Hann bendir jafnframt á að með daglegum ferðum þá fjölgi verulega þeim áfangastöðum sem íslenskir farþegar félagsins geta flogið til með millilendingu á Heathrow. Þotur British Airways fljúga til að mynda þaðan til 199 áfangastaða og þar af er um helmingur í Evrópu, 10 á Bretlandi og 79 í fjarlægari löndum.

Fimmta hver ferð til London

Auk British Airways bjóða easyJet, Icelandair og WOW air upp á flug til Lundúna og lætur nærri að um fimmta hver þota sem tekur á loft frá Keflavíkurflugvelli setji stefnuna á bresku höfuðborgina samkvæmt mánaðarlegum talningum Túrista. Svo mikil er umferðin ekki til nokkurs annars áfangastaðar í leiðakerfi íslenska flugvallarins og reyndar einstakt hér á landi að fjögur flugfélög séu í samkeppni á einni flugleið allt árið um kring.