Færri vilja gista hjá Trump

trump chicago

Frammistaða sigurvegarans í forkosningum repúblikana hefur haft neikvæð áhrif á hótelkeðjuna sem kennd er við frambjóðandann sjálfan.
Það fer ekki framhjá neinum sem fylgst hefur með fréttum síðustu misseri að Donald J. Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, er mjög umdeildur maður. Ekki bara í Bandaríkjunum heldur víða um heim. Áður en hann hóf afskipti af stjórnmálum var hann hins vegar þekktur viðskiptamógull og ein helsta eign hans eru fimm stjörnu lúxushótel sem meðal annars er að finna í stærstu borgum Bandaríkjanna og Kanada. Nú eru hins vegar teikn á lofti um að málflutningur Trump í kosningabaráttunni sé farinn að koma niður á viðskiptaveldi hans því samkvæmt nýrri könnun bandarísku ferðasíðunnar Skift þá telja nærri sex af hverjum tíu svarendum það vera ólíklegra nú en áður að þeir bóki herbergi á Trump hóteli. Áhugi tæplega fjórðungs þátttakenda á gististöðum frambjóðandands hefur hins vegar aukist en tæpur fimmtungur segist ekki hafa haft hugmynd um að Trump væri í hótelgeiranum.

Karlar spenntari fyrir nótt á Trump

Yngra fólk er ólíklegra en það eldra til að panta gistingu hjá Trump, eins og staðan er í dag, samkvæmt könnuninni en tekjulágir væru frekar til í að eyða nóttinni á 5 stjörnu hóteli kenndu við þennan umdeilda mann en þeir sem eru með meðaltekjur eða þær hæstu. Það er einnig verulegur munur á eftirspurn eftir gistingunni meðal karla og kvenna. Þannig segja nærri þrjár af hverjum fjórum konum á vesturströnd Bandaríkjanna að þær myndu ekki tékka sig inn á hótel í eigu repúblikans og andstaðan var álíka mikil meðal kynsystra þeirra í norðausturhluta landsins. Í suðurríkjunum var fólk hins vegar jákvæðast og sérstaklega karlarnir. Þannig sögðu 3 af hverjum 10 körlum í suðurhluta Bandaríkjanna að þeir væru líklegri en áður til að bóka herbergi hjá Trump.