Norskum flugvelli lokað vegna nýs farþegaskatts

farthegar oslo

Í fyrra fóru 1,6 milljónir farþega um Rygge flugvöll við Óslóarfjörð en í lok árs verður flugstöðinni lokað vegna aukinna álaga á norska fluggeirann. Í fyrra fóru 1,6 milljónir farþega um Rygge flugvöll við Óslóarfjörð en í lok árs verður flugstöðinni lokað vegna aukinna álaga á norska fluggeirann. Farþegar sem fljúga til Íslands frá Noregi verða líka skattlagðir.
Í fjárlögum norska ríkisins í ár er reiknað með tekjum upp á rúman milljarð norskra króna vegna nýs farþegaskatts. Upphaflega stóð til að leggja skattinn á í lok vetrar en gildistökunni var frestað til 1. júní. Gjaldið nemur 80 norskum krónum en ofan á það bætist virðisaukaskattur upp á tíund og heildargjaldið verður þar af leiðandi 88 norskar sem samsvarar um 1.300 íslenskum krónum. Þessar auknu álögur hafa mætt mikilli andstöðu í norska fluggeiranum og hafa forsvarsmenn flugfélaganna SAS og Norwegian meðal annars boðað að flugleiðir sem ekki eru nægjanlega ábatasamar verði lagðar niður. Stjórnendur Avinor, sem sér um rekstur flugvalla í eigu norska ríkisins, óttast að gjaldið verði til þess að flugfélög í landinu flytji hluti af starfsemi sinni til nágrannalandanna þar sem gjöldin eru lægri. Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, hafa í umsögn sinni um brottfarargjöldin sagt þau stríða gegn alþjóðlegum samþykktum og ferðamálasamtök Noregs hafa einnig mótmælt þeim. 

1000 störf hverfa

Flugvallarstjórinn á Moss-Rygge flugvelli við Óslóarfjörð hefur hins vegar farið fremstur í andstöðunni gegn skattinum. Ástæðan er sú að írska lággjaldaflugfélagið Ryanair stendur undir bróðurparti allra umsvifa á þessum gamla herflugvelli og Írarnir gáfu út í vetur að þeir myndu leggja niður starfsstöð sína við Rygge ef farþegaskatturinn yrði að veruleika. Í fyrra fóru 1,6 milljónir farþega um Rygge flugvöll og þar af voru ríflega milljón á leið í flug með Ryanair. Án lággjaldaflugfélagsins er engin rekstrargrundvöllur fyrir flugvöllinn að mati flugvallarstjórans og í gær var tilkynnt að eigendur Rygge muni loka flughöfninni 1. nóvember næstkomandi þegar vetrardagskrá flugfélaganna hefst. Þar með leggjast niður um þúsund störf í tengslum við flugvallarsvæðið en Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs, sagði á norska stórþinginu í gær að hún teldi að ekkert yrði úr þessari lokun flugvallarins. Hún gagnrýndi hins vegar málatilbúnað Ryanair og formaður stéttarfélagsins flugvallarstarfsmanna (Parat) hefur sakað Ryanair um að beita hótunum til að ná sínu fram.

Hugmyndir um margfalt hærra gjald hér á landi

Sem fyrr segir nemur nýi norski farþegaskatturinn rúmum 1300 íslenskum krónum en til samanburðar lagði Friðrik Pálsson, fyrrum stjórnarformaður Íslandsstofu, nýverið til, í viðtali við Morgunblaðið, að allir ferðamenn sem hingað koma yrðu að greiða þrjú til fimm þúsund króna framlag í sérstakan sjóð. Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, var á sömu línu í aðsendri grein í sama blaði. Í kjölfarið sagði talskona SAS, stærsta flugfélags Norðurlanda, í viðtali við Túrista, að þess háttar gjaldtaka gæti haft eyðileggjandi áhrif á íslenska ferðaþjónustu og almennt leitt til þess að framboð á flugi til landsins dragist saman.