Tugprósenta verðhækkun dregur ekki úr keyrandi flugfarþegum

fle 860

Íslendingar á leið til útlanda halda áfram að keyra út á flugvöll þó það sé orðið mun dýrara að skilja bílinn eftir við flugstöðina. Íslendingar á leið til útlanda halda áfram að keyra út á flugvöll þó það sé orðið mun dýrara að skilja bílinn eftir við flugstöðina. Grípa þurfti til séraðgerða um páskana til að koma öllum ökutækjunum fyrir.
Þann fyrsta apríl hækkaði daggjaldið á langtímastæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar úr 950 krónum í 1.250 eða um nærri þriðjung. Hækkunin er enn meiri ef bílnum er lagt í lengri tíma og til að mynda hefur daggjaldið í þriðju viku tvöfaldast.
Eftir þessar breytingar kostar 3.750 kr. að leggja bíl við flugstöðina í þrjá daga, 8.750 kr. í viku og 15.400 kr. í tvær vikur. Þrátt fyrir þessar miklu hækkanir þá verða forsvarsmenn flugvallarins ekki varir við minni notkun á bílastæðunum samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Nær eingöngu fyrir íslenska farþega

Páskarnir í ár voru í lok mars, sem sagt áður en verðhækkunin á bílastæðunum tók gildi, en þá var það mikil ásókn í langtímastæðin að þau fylltust. Þurfti að gera tilfæringar á öðrum stæðum til að koma öllum ökutækjunum fyrir. Það eru að mestu leyti bílar farþega sem búsettir eru hér á landi sem lagt er á langtímastæðið því bílaleigubílar eru geymdir annars staðar.
Nú standa svo yfir framkvæmdir við Keflavíkurflugvöll þar sem núverandi starfsmannastæði fara undir langtímastæði fyrir farþega og byggð verða ný stæði fyrir starfsfólk.

Rútan ódýrari fyrir lengri utanferðir

Hærri bílastæðagjöld virðast, enn sem komið er, ekki hafa orðið til þess að fleiri farþegar fari með rútu til og frá flugvellinum. En líkt og Túristi benti á þá geta farþegar sparað sér umtalsverðar upphæðir með því að nota almenningssamöngur í og úr flugi. Sérstaklega þeir sem eru að fara í lengri utanlandsferð eins og sjá má á grafinu fyrir neðan. Höfuðborgarbúi sparar sér aukalega eitt til þrjú þúsund krónur í bensín með því að skilja bílinn eftir heima en á móti kemur kostnaður við að koma sér frá heimili að umferðarmiðstöð, til dæmis með leigubíl.