Breytingar á áfengistollinum standa í ÁTVR og Fríhöfninni

vin farangur Angelina litvin

Tekjur ríkisins af áfengisgjaldi munu lækka um 200 milljónir á ári með nýju frumvarpi fjármálaráðherra. Að kaupa sitt lítið af hverju er nauðsynlegt til að nýta allan tollinn við komuna til landsins en á því kann að verða breyting á næstunni. Í framhaldinu er búist við að sala Vínbúðanna dragist saman og tekur ríkisins af áfengisgjaldi lækki um 200 milljónir. Aukin umsvif komuverslunar Fríhafnarinnar vega upp á móti.
Þeir flugfarþegar sem vilja fullnýta sér áfengiskvótann í komuverslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli þurfa í dag að blanda saman sterku áfengi, léttvíni og bjór í samræmi við fimm ólíkar samsetningar. Ef nýtt frumvarp fjármálaráðherra verður að lögum mega farþegar hins vegar leggjast í sortir líkt og Túristi greindi frá.
Ferðafólk getur þá til dæmis valið að nýta allan tollinn til að kaupa bjór og sleppa í staðinn léttvíni og sterku áfengi. Hámarkið verður miðað við 6 einingar og í frumvarpinu er ein áfengiseining skilgreind sem 3 lítrar af bjór, 0,75cl af léttvíni eða 0,25cl af sterkara áfengi. Sá sem aðeins kaupir bjór getur þá keypt 6 stórar kippur eftir breytinguna en í dag er hámarkið 4 kippur.

Dregur úr sölu Vínbúðanna

Í greinargerð með frumvarpinu segir að búast megi við að þessar nýju reglur verði til þess að sala Vínbúðanna minnki um 1 til 2 prósent og tekjur ríkisins af áfengisgjaldi dragist saman um 200 milljónir. Búist er við að tekjur af aukinni sölu í komuversluninni muni vega upp á móti. Í umsögn Ívars J. Arndal, forstjóra ÁTVR og Vínbúðanna, segir hins vegar að frumvarpið sé ekki nægilega vel ígrundað og gerir hann athugasemd við að ekki sé vikið að afleiðingum þess fyrir lýðheilsu. Í því samhengi er bent á að með breytingunum geti flugfarþegar keypt meira af sterku áfengi en áður, þ.e. 1,5 lítra en nú liggja mörkin við einn lítra. ÁTVR tekur þó undir forsendur frumvarpsins um að breytingarnar einfaldi starf starfsfólks Fríhafnarinnar og jafnvel tollvarða en það megi hins vegar ekki gera á kostnað lýðheilsuhagsmuna. „Þá er rétt að benda á að aukin heimild tiltekinna aðila til innflutnings áfengis án álagningar áfengisgjalds eykur aðstöðumun þeirra sem hafa tök á að ferðast til útlanda og hinna sem ekki eiga þess kost,” segir í lok umsagnar ÁTVR.

8 af hverjum 10 kaupa sömu þrjár blöndurnar

Forsvarsmenn Isavia, rekstraraðila Fríhafnarinnar, hafa líka efasemdir um ágæti frumvarpsins í sinni umsögn og segja forsendurnar um að breytingarnar muni auka áfengissölu í komuversluninni byggja á misskilningi. Ástæðan er sú að 80 prósent af áfengiskaupum í Fríhöfninni í dag fylgi samsetningum 1 til 3 en áfengiseiningarnar í þeim tveim fyrstu eru of margar miðað við hámark um 6 einingar eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Vegur þar þungt að í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir að 1 lítri af sterku áfengi teljist vera 4 einingar. Isavia leggur því til þá breytingu að heimild til kaupa á sterku áfengi verði tvöfölduð með því að skilgreina hálfan lítra sem eina einingu en ekki tvær. Í umsögn Isavia er einnig viðruð hugmynd um að hámarka kaup á sterku áfengi við einn lítra en ekki einn og hálfan.