Með Icelandair til stærsta þyrluflugvallar Evrópu

aberdeen flugvollur

Það er ekki flókið að fara um flugstöðina í Aberdeen þrátt fyrir allar þyrlurnar. Það er ekki flókið að fara um flugstöðina í Aberdeen þrátt fyrir allar þyrlurnar.
Einn helsti kosturinn við að fljúga til minni borga er sá að þar eru flugstöðvarnar alla jafna smáar í sniðum og því fljótlegt að fara um þær. Ein af undantekningunum frá þessari reglu er Keflavíkurflugvöllur sem er merkilega stór miðað við fámennið hér á landi. Flugstöðin í Aberdeenskíri er hins vegar lítil og þægileg þó íbúarnir þar séu litlu færri en hér á landi eða kvartmilljón. Farþegar sem eru eingöngu með handfarangur komast því frá flugvélinni og upp í leigubíl eða flugvallarrútu á nokkrum mínútum. Hinir sem eru með stærri tösku, eða golfsett, sækja sitt á eina farangursbeltið í flugstöðinni. Einfaldara gæti það varla verið.

Ferðamenn í stað olíu

Þrátt fyrir smæð flughafnarinnar í Aberdeen þá er hún engu að síður stærsti þyrluflugvöllur í Evrópu og þar standa þyrlur af öllum stærðum og gerðum á meðan flugflotinn er mun minni. Ástæðan fyrir þessari miklu þyrluumferð er sú að við austurströnd Skotlands liggja óteljandi olíuborðpallar og Aberdeen er helsta miðstöð breska olíuiðnaðarins. Það er ástæðan fyrir því að fasteignaverð í Aberdeen með því hæsta sem þekkist í Bretlandi. Umferðin út á olíupallana hefur hins vegar dregist saman síðustu misseri því umsvifin þar hafa minnkað með lækkandi olíuverði. Og einmitt vegna þessara breytinga vilja hæstráðendur í Aberdeen og nágrenni setja kraft í ferðaþjónustuna og fagna því nýju áætlunarflugi Icelandair til borgarinnar. Með komu íslenska flugfélagsins styttist til að mynda ferðatíminn milli Aberdeen og flestra borga í N-Ameríku töluvert og íbúar Aberdeen, á leið vestur um haf, geta þá líka flogið beint úr heimabyggð í stað þess að fara um Edinborgarflugvöll.

Varla fríhöfn

Á sama hátt og það tekur skamman tíma að koma sér frá flugvél og út á götu við komuna til Aberdeen þá er leiðin frá innritunarborðinu og að brottfararhliði flugvallarins stutt. Stærð flughafnarinnar takmarkar hins vegar úrvalið af mat og varningi og farþegar sem mæta í flugið svangir eða eiga eftir að redda gjöfum hafa ekki úr miklu að moða. Þarna er bókabúð, lítil fríhafnarverslun, krá með einfaldan matseðil og svo kaffihús. Það er því vissara að borða niðri í bæ áður en heimferðin hefst. 
Það tekur um hálftíma að keyra milli Aberdeen og flugstöðvarbyggingarinnar og skiptir þá litlu hvort setið er í leigubíl eða flugvallarrútunni. Fyrri kosturinn kostar um 15 pund en sá seinni er fimmtungi ódýrari en þar er frítt net um borð. Gott er að hafa í huga að skoskir leigubílstjórar taka oft ekki við greiðslukortum.

Túristi heimsótti Aberdeen í boði Icelandair og ferðamálaráðs Aberdeenskíris.