Bilið á milli Icelandair og WOW hefur helmingast

saeti icelandair wow

Á árunum 2013 og 2014 flutti Icelandair ríflega fimm sinnum fleiri farþega en WOW air. Núna er bilið miklu minna. Á árunum 2013 og 2014 flutti Icelandair ríflega fimm sinnum fleiri farþega en WOW air. Núna er bilið miklu minna.
Í lok þessa mánaðar eru liðin fjögur ár frá fyrsta flugi WOW air og var félagið þá um leið þriðja umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli á eftir Icelandair og Iceland Express. WOW tók hins vegar það síðarnefnda yfir haustið 2012. Fyrsta heila árið í rekstri lággjaldaflugfélagsins var því 2013 og þá flugu 412.583 farþegar með félaginu. Farþegafjöldinn hjá Icelandair það sama ár var nærri 2,3 milljónir eða 5,5 sinnum meiri og árið eftir var munurinn álíka mikill eða ríflega fimmfaldur. Með tilkomu áætlunarflugs WOW til Bandaríkjanna sl. vor þá fjölgaði farþegum félagsins verulega en samt sem áður var Icelandair ríflega fjórum sinnum stærra flugfélag, í farþegum talið, í fyrra.
Síðustu misseri hafa umsvif WOW haldið áfram að aukast hratt og þegar bornar eru saman farþegatölur fyrirtækjanna tveggja fyrir síðustu þrjá mánuði kemur í ljós að bilið hefur helmingast frá árinu 2013 eins og sjá má á línuritnu hér fyrir neðan. Í apríl flutti WOW til að mynda 80 þúsund farþega en þeir voru 214 þúsund hjá Icelandair eða 2,7 sinnum fleiri.

Ólíkir flugflotar í framtíðinni

Þegar litið er til talninga Túrista yfir fjölda flugferða frá Keflavíkurflugvelli í apríl þá var munurinn á ferðum félaganna ögn meiri eða 3,1 (310,1%). Helsta ástæðan fyrir mismuninum er sú að í flugflota WOW er að finna 200 sæta þotur á meðan Boeing vélar Icelandair taka 183 farþega. Um þessar mundir er Icelandair hins vegar að taka í notkun tvær Boeing 767 breiðþotur og tvær í viðbót bætast við á næsta ári. Í þessum flugvélum eru sæti fyrir áttatíu fleiri farþega en í þeim sem fyrir eru í flota félagsins. Á þarnæsta ári fær Icelandair svo afhentar fyrstu Boeing-737 MAX8 og 9 þotur sínar en þær rúma færri farþega eða um 150 annars vegar og 170 hins vegar. Forsvarsmenn WOW air ætla hins vegar að byggja upp sinn flugflota með stærri Airbus vélum með allt að 200 sætum og mun félagið svo nýta 340 sæta Airbus-330 vélar í áætlunarflug sitt til Kaliforníu sem hefst í næsta mánuði.