Icelandair og WOW í sitthvora áttina til Montreal

montreal stor

Bæði íslensku flugfélögin stíga nú sín fyrstu skref í Montreal. Hjá öðru félaginu hafa fargjöldin lækkað fram að jómfrúarfluginu en hækkað hjá hinu. Bæði íslensku flugfélögin stíga nú sín fyrstu skref í Montreal. Hjá öðru félaginu hafa fargjöldin lækkað fram að jómfrúarfluginu en hækkað hjá hinum.
Það hefur ekki gerst áður að tvö íslensk flugfélög hefji áætlunarflug til nýs áfangastaðar á sama tíma. Það er hins vegar raunin með nýtt áætlunarflug til kanadísku borgarinnar Montreal því í síðustu viku fór WOW air jómfrúarferð sína þangað og eftir helgi lendir vél Icelandair í fyrsta skipti í borginni. Upphaflega ætluðu bæði félög að fljúga fjórar ferðir í viku, WOW allt árið en Icelandair fram á haust. Forsvarsmenn WOW bættu hins vegar fimmtu brottförinni við nýlega og umsvif félagsins í hinum frönskumælandi hluta Kanada verða því talsvert meiri.

Þriðjungi ódýrari

Vegna sérstöðu þessarar flugleiðar í íslenskri flugsögu er áhugavert að bera saman fargjöld félaganna tveggja og nú hefur Túristi í þrígang reiknað út meðalverð þeirra ríflega 200 flugferða sem Icelandair og WOW er munu bjóða upp á milli Íslands og Montreal yfir sumarmánuðina þrjá. Fyrsta könnunin var gerð í lok október og þá kom í ljós að enginn munur (0,4%) var á meðalfargjaldi Icelandair (74.281kr) og WOW (74.101kr) þegar töskugjaldi félagsins var bætt við. Í lok janúar hafði meðalverðið hjá Icelandair hins vegar lækkað um 2 þúsund krónur en hækkað um nærri sextán hundruð krónur hjá WOW.
Í dag er staðan hins vegar gjörbreytt því nú kostar farmiði með Icelandair til Montreal og heim aftur að jafnaði rúmlega eitt hundrað þúsund krónur og hefur hækkað um 40 prósent. Hjá WOW air hefur meðalverðið hins vegar lækkað um rúma tíund eða niður í 67.617 krónur eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Farmiðaverð WOW er því þriðjungi lægra.
Þess má geta að í dag hefur WOW air áætlunarflug til Toronto, fjölmennustu borgar Kanada, en þangað hefur Icelandair flogið um árabil.