Nýr framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar þarf ekki að hafa reynslu af ferðaþjónustu

erlendir ferdamenn

Þó Stjórnstöð ferðamála hafi aðeins verið starfrækt nú í vetur þá hafa verið gerðar breytingar á rekstrarformi og nýr yfirmaður verður ráðinn. Þó Stjórnstöð ferðamála hafi aðeins verið starfrækt nú í vetur þá hafa verið gerðar breytingar á rekstrarformi og nýr yfirmaður verður ráðinn. Honum er ætlað að móta íslenska ferðaþjónustu til framtíðar en þarf ekki að hafa þekkingu eða reynslu úr geiranum frekar en forveri hans.
Ráðning Harðar Þórhallssonar sem yfirmanns nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála var umdeild síðastliðið haust. Meðal annars vegna þess að hann var ráðinn án auglýsingar og hafði ekki praktíska reynslu úr ferðageiranum heldur aðallega úr lyfjaiðnaði. Hörður lætur nú af störfum og um helgina var auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra. Í auglýsingunni segir að leitað sé eftir öflugum leiðtoga sem er reiðubúinn til að leggja sitt að mörkum við að móta framtíð íslenskrar ferðaþjónustu. Hins vegar er ekki nú, frekar en áður, gerð krafa um að yfirmaður Stjórnstöðvar hafi þekkingu eða reynslu í ferðaþjónustu. Aðeins að tilgreint að viðkomandi þurfi að hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Yfirgripsmikil reynsla af verkefnastjórn, stefnumótunarvinnu og áætlanagerð er einnig nauðsynleg ásamt öðru. Umsóknarfrestur rennur út í lok mánaðar.

Kemur festu á reksturinn

Upphaflega voru það stjórnvöld, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök sveitarfélaga sem stóðu að stofnun Stjórnstöðvar og ætlunin að starfrækja hana fram til ársins 2020. Samkvæmt tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu í byrjun mánaðar hefur nú verið stofnað rekstrarfélag um Stjórnstöðina og það að helmingi í eigu ríkissjóðs og hinn helmingurinn hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins, segir í svari til Túrista að með þessari breytingu sé einfaldlega verið að koma á fót félagi um almennan rekstur og starfsmannamál Stjórnstöðvarinnar. Aðspurður um hvernig þetta verði félaginu til framdráttar segir Þórir að þetta komi festu á reksturinn en breyti í sjálfu sér engu um þau verkefni sem eru á borði Stjórnstöðvarinnar.