Tekjur á hvern farþega WOW jukust um 1.407 krónur

Hver farþegi WOW air skilar núna meiru í kassann nú en áður en skýringuna er þó ekki að finna í hækkandi farmiðaverði að mati forstjóra og eiganda félagsins.

wowair freyja

Fyrstu þrjá mánuðina í fyrra námu tekjur WOW air á hvern farþega 19.318 krónum. Þær hækkuðu hins vegar um rúmlega sjö prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs eða upp í 20.725 krónur samkvæmt útreikningum Túrista sem byggðir eru á upplýsingum úr fréttatilkynningum WOW air.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir lengri flugleiðir skýra muninn og bendir á að á fyrsta ársfjórðungi í fyrra hafi félagið ekki flogið til Bandaríkjanna né til Kanaríeyja. Þangað hafa þotur félagsins hins vegar farið oft í viku allt þetta ár. Skúli fullyrðir að verð á flugi til flestra áfangastaða hafi farið lækkandi í ár og skýringuna á auknum tekjum per farþega er því ekki að finna í hækkandi fargjöldum.

Tölurnar hækka hratt

Mikill viðsnúningar varð á rekstri WOW air á fyrsta ársfjórðungi og skilaði félagið 400 milljón króna hagnaði en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam tapið 280 milljónum. Flugáætlun félagsins ríflega tvöfaldaðist á tímabilinu, veltan jókst ennþá meira og farþegafjöldinn fór úr 88 þúsundum í 193 þúsund samkvæmt tilkynningu frá WOW air. Hagnaðurinn á tímabilinu er meðal annars áhugaverður fyrir þær sakir að flugfélög skila oftar en ekki tapi þessa fyrstu mánuði ársins þegar færri eru á ferðinni. Þannig hefur rekstur Icelandair Group vanalega verið í mínus fyrstu þrjá mánuði ársins og svo var einnig í ár. Þar með er ekki sagt að flugrekstur félagsins hafi skilað tapi en þar sem fyrirtækjasamsteypan gerir upp alla sína starfsemi í einu þá er ekki opinbert hver afkoma flugfélagsins Icelandair var ein og sér. Hins vegar sést í uppgjöri Icelandair Group, fyrir fyrsta ársfjórðung, að farþegatekjur Icelandair og Flugfélags Íslands jukust um rúmlega tíund frá því í fyrra.

37 prósent hærri tekjur hjá WOW

Vegna samsetningar Icelandair Group þá liggur beinna við að bera saman afkomu WOW air og hins norska Norwegian. Þessi tvö fyrirtæki eru nefnilega sambærileg að mörgu leyti, bæði eru þau t.a.m. norræn lággjaldaflugfélög sem bjóða upp á flug yfir hafið. Flugfloti beggja er líka nýlegur og þar með eyðslugrannur í samanburði við félög með eldri flugvélar. Norwegian var sem fyrr rekið með tapi á fyrsta ársfjórðungi en félagið skilar samt sem áður oftast hagnaði þegar allt árið er gert upp. Farþegum Norwegian hefur fjölgað verulega í ár, líkt og hjá WOW, en tekjur á hvern farþega norska félagsins eru tæpar 13 þúsund krónur eða 37 prósent lægri en hjá WOW air eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Megin skýringin á þessum muni er líklegast sú að Norwegian er mjög umsvifamikið í innanlandsflugi í Skandinavíu og svo stutt flug skila minni tekjum þó þau geti verið ábatasöm.

Þakkar starfsfólkinu

Aðspurður um þessa jákvæðu afkomu í byrjun árs segir Skúli að arðsemi af rekstrinum sé í augnablikinu ekki aðalatriði hjá sér heldur frekar að búa félagið undir áframhaldandi vöxt. Hann segist þó vera mjög ánægður að sjá að viðskiptamódelið gangi upp yfir vetrarmánuðina og það sé merkilegt að sætanýtingin sé 88 prósent á sama tíma og umsvifin hafi tvöfaldist. „Síðast en ekki síst erum við komin með frábært teymi sem veit hvert það er að fara og hvernig á að komast þangað,” bætir Skúli við.