Það sem veldur viðskiptaferðalöngum mestu hugarangri

flugfarthegi

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að fljúga milli landa vegna vinnunnar. Þau atriði sem valda fólki í vinnuferðum í útlöndum mestu hugarangri.
Í sumum borgum er það þannig að hótelin eru sneisafull í miðri viku en bjóða svo tilboð yfir helgarnar. Það er sem sagt fólk í vinnunni sem heldur hótelunum gangandi ef svo má segja. Þrátt fyrir alla upplýsingatæknina eru nefnilega engin merki um að það hafi dregið úr ferðalögum erindreka, háttsettra kontórista eða sérfræðinga á hinum og þessum sviðum. Þessi eilífu ferðalög geta hins vegar tekið á sálartetrið líkt og niðurstöður nýrrar könnunar á vegum hótelbókunarsíðunnar Booking.com sýna.

Þráðlaust net og tungumálaörðugleikar

Í könnuninni tóku þátt 4.500 viðskiptaferðalangar frá níu löndum og nærri fimmtungur þeirra sagði að áhyggjur af gæðum þráðlausa netsambandsins í háloftunum ylli þeim reglulega áhyggjum fyrir flug. Fjórðungur óttast það að týna síma eða tölvu á ferðalagi en það sem veldur þessum hópi mestu hugarangri eru tungumálaerfiðleikar og að takast á við ólíka siði í löndunum sem heimsækja á. 21 prósent svarenda sagðist líka hafa áhyggjur af því að villast í útlöndum og 16 prósent sögðu það streituvaldandi að flytja erindi fyrir fólk utan landsteinanna.