Borðað í takt við árstíðirnar í Hamborg

Almennilegt hráefni á vinsælum og huggulegum stað í vesturhluta Hamborgar.

klippkroog f

Stór hluti af því að ferðast er að bragða á mat heimamanna og í Hamborg er Klippkroog kjörinn áningastaður fyrir túrista í leit að þýskum kræsingum. Hér geta íbúar borgarinnar og gestir gengið að því sem vísu að á matseðlinum sé ávallt að finna úrval af réttum sem matreiddir eru úr hráefni sem sótt er í nærsveitirnar. Og oftar en ekki lífrænt. Á morgnana eru í boði klassískir þýskir früstück í þremur mismunandi stærðum (900 til 1700kr) með osti frá Schleswig Holstein, skinku frá Wagner slátrara í Hamborg og lífrænu brauði frá Kiel. Einnig má þar finna þýska útgáfu af fátækum riddara og ýmislegt sætt með hinu ljómandi góða kaffi sem boðið er upp á.

Síbreytilegur matseðill

Árstíðarsveiflur í norðurhluta Þýskalands stjórna hins vegar algjörlega ferðinni þegar kemur að hádegis- og kvöldmatnum á Klippkroog. Hádegisseðillinn er til að mynda aldrei sá sami en þar stendur valið oftast á milli súpu (600kr), salats (1100kr) og tveggja heitra rétta (1200kr). Megináherslan á gott grænmeti og kannski einn fiskrétt. Matseðill kvöldsins er endurnýjaður vikulega og þar eru réttirnir á 2000 til 2800 krónur. Þeir sem eru að spá í heimsókn á Klippkroog geta fundið matseðla dagsins á heimasíðunni.
Klippkroog er Altonta-hverfinu, í vesturhluta miðborgarinnar, og ber það með sér að vera vinsæll hjá heimamönnum. Fólk með barnavagna er áberandi á útisvæðinu en við grófu eikarborðin í salnum situr fólk í öllum aldurshópum og ýmist borðar eða drekkur kaffi, vín eða öl.
Klippkroog, við Grosse Bergstrasse 255, er opin alla daga frá 9 til miðnættis en lokar klukkan sex á sunnudögum. Næsta S-bahn stöð er Hamborg-Altona.

Túristi flaug á vegum Icelandair sem býður upp á allt að fjögur flug í viku til Hamborgar frá vori og fram í lok október.