7 ráð fyrir þá sem vilja sofna í háloftunum

lufthansa farþegi

Það er mikilvægt að sofna þegar flogið er yfir tímabelti og hér eru leiðir til koma okkur í draumahöllina.

Það er mikilvægt að sofna þegar flogið er yfir tímabelti og hér eru leiðir til koma okkur í draumahöllina. 
Lengsta flugleiðin frá Íslandi eru ferðir WOW air til Los Angeles og tekur ferðalagið nærri 10 tíma. Við komuna til Kaliforníu er ekki einu sinni kominn kvöldmatartími þó nýr sólarhringur sé hafinn hér á landi. Það skiptir því sköpum að fá sér smá kríu í vélinni til að þurfa ekki að leggja sig stuttu eftir lendingu. Sama á við þegar flogið er til annarra áfangastaða vestanhafs og auðvitað líka þegar flogið er langt í aðrar áttir eða í næturflugi meginlands Evrópu. Það getur hins vegar verið snúið að sofna sitjandi í þéttsetinni flugvél en hér eru sjö ráð sem danski svefnfræðingurinn Søren Berg mælir með með við lesendur Politiken sem vilja sofna í flugi.

1. Í lagi að drekka smá
Þvert á það sem flestir segja þá er allt í lagi að drekka smá áfengi um borð en þó hóflega. Vínglas með matnum og koníak með kökunni er í lagi og getur auðveldað þér að sofna segir Berg. Ölvun eyðileggur hins vegar svefninn og það er aldrei gott að vakna timbraður og alls ekki ef maður er vakinn af flugvallarlöggunni.

2. Velja rétta sætið um borð.
Ef þú vilt auka líkurnar á því að sofna þá er mikilvægt að verða ekki fyrir truflun. Þess vegna skaltu reyna að fá sæti þar sem þú þarft ekki að standa upp í hvert skipti sem sessunauturinn þarf á salernið. Og mundu eftir að spenna beltið áður en þú sofnar svo áhöfnin vekji þig ekki til að biðja þig um að spenna, til dæmis ef það verður ókyrrð á miðri leið.

3. Vertu í þægilegum fötum.
Fæstir vilja kannski fara í ferðalag í joggingfötum eða náttfötum en þá er um að gera að velja sér víð föt sem ekki þrengja að og um að gera að fara úr skónum.

4. Það er mikilvægt að sofna á réttum tíma.
Gefðu þér tíma til að borða, ef það er í boði, fyrir háttinn og reyndu líka að vakna tímanlega fyrir lendingu. Þá þarftu ekki að rjúka upp um leið og þú opnar augun.

5. Ekki borða of mikið.
Það gefst kannski ekki tækifæri til að borða á sig gat í flugi og kannski sem betur fer því það er erfitt að sofna með allt meltingakerfið á yfirsnúningi.

6. Ósofin vegna óhljóða
Hávaði og birta getur komið í veg fyrir góðan svefn og því um að gera að taka með sér eyrnatappa og svefngrímu.

7. Þægindi lykilatriði
Höfuðpúðar eru kannski ekki sérstaklega glæsilegir en þeir geta auðveldað manni að finna góða stöðu til að sofa í.