Beddar á ódýrasta farrými

beddi

Það er stundum hægt að breiða úr sér yfir heila sætaröð og hér er kynnt til sögunnar sérstök dýna sem bætir aðstöðuna verulega.
Frá Icelandair og WOW air berast reglulega fréttir af hárri sætanýtingu og jafnvel stærstu flugfélög heims segja nýtinguna í Íslandsfluginu meiri en gerist og gengur. Þær eru því greinilega þéttsetnar þoturnar sem fljúga til og frá landinu þessi misserin. Farþegar geta þar af leiðandi sjaldan teygt úr sér yfir heila sætaröð líkt og getur verið afskaplega þægilegt, til að mynda þegar flogið er frá Keflavíkurflugvelli um miðnætti. En traffíkin á þeim tíma er mjög mikil enda mörg erlend flugfélög sem bjóða aðeins upp á næturflug héðan. 
Sú staða getur hins vegar komið upp að nokkrar sætaraðir standi tómar og nú hefur ítalska fyrirtækið Geven þróað flugsæti sem auðvelt er að breyta í svefnbedda eins og sjá má her fyrir neðan. Það fylgir kynningunni frá fyrirtækinu að þau flugfélög sem taka svona sæti í gagnið eigi að geta selt farþegum sínum þessa aðstöðu fyrir aukaþóknun og þá jafnvel stuttu fyrir brottför þegar útséð er með að sætin verði bókuð.