Erfitt að meta langtímaáhrif Brexit á Icelandair Group

icelandair 767 757

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild Bretlands að ESB hefur virði breskra og evrópskra flugfélaga lækkað vegna óvissunnar sem nú ríkir. Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild Bretlands að ESB hefur virði breskra og evrópskra flugfélaga lækkað. Forstjóri Icelandair Group segir að ekki hafi verið gripið til séraðgerða vegna málsins innan fyrirtækisins.
Ferðaþjónustan í Bretlandi ber sig illa eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild landsins að ESB lá fyrir. Í kjölfarið lækkaði gengi breska pundsins nefnilega verulega sem gæti dregið úr ferðalögum Breta til annarra landa og eins ríkir um óvissa réttarstöðu breskra ferðamanna í Evrópu. Loftferðasamningar Bretlands eru líka í flestum tilfellum bundnir ESB og þurfa Bretar því að gera sína eigin samninga í framhaldinu. Þessi gjörbreytta staða hefur haft slæm áhrif á virði evrópskra flugfélaga og sérstaklega þeirra bresku. Til að mynda hefur gengi easyJet, stærsta lággjaldaflugfélags Bretlands, lækkað um 30 prósent frá því úrslitin lágu fyrir og virði móðurfélags British Airways er þriðjungi lægra í dag en það var sl. fimmtudag.

Bretar langstærsti hópurinn á veturna

Icelandair er umsvifamikið í Bretlandi og þar eru sex af 42 áfangastöðum félagsins. Vægi breska markaðarins er hins vegar mun hærra þegar litið er til flugferða Icelandair því 15 til 20 prósent allra áætlunarferða þess eru til og frá breskum flugvöllum samkvæmt talningu Túrista. Óhætt er að fullyrða að fleiri dótturfélög Icelandair Group hafa einnig mikilla hagmuna að gæta á breska markaðnum. Til að mynda Icelandair Hotels því síðastliðinn vetur stóðu Bretar undir 36 af hverjum 100 seldum gistinóttum á öllum hótelum höfuðborgarinnar. Hvort vægi breskra gesta er svona hátt hjá Icelandair Hotels liggur hins vegar ekki fyrir og ekki heldur hversu stór hluti veltu ferðaskipuleggjandans Iceland Travel tengist Bretlandi. En víst má telja að breski markaðurinn skipti þar sköpum líkt og hjá fleiri íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar það lætur nærri að einn af hverjum þremur erlendu ferðamönnum sem hingað koma er breskir. Vægi Bretanna er um fimmtungur af heildinni þegar litið er til alls ársins en þeir eru, ásamt Bandaríkjamönnum, langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi.

Gæti haft jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu

Aðspurður um áhrif þessarar gjörbreyttu stöðu í Bretlandi á rekstur Icelandair Group segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, að það sé ljóst að niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar fylgir mikil óvissa, að minnsta kosti til skamms tíma. „Áhrifin til lengri tíma eru hins vegar mjög óljós og þess vegna erfitt að meta hvort útganga Bretlands úr Evrópusambandinu muni á endanum hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á rekstur Icelandair Group og dótturfélaga eða á ferðaþjónustu á Íslandi.” Að sögn Björgólfs hefur hins vegar ekki verið gripið til sérstakra aðgerða innan fyrirtækisins vegna niðurstöðu þjóðartkvæðagreiðslunnar en virði hlutabréfa félagsins hefur lækkað um 6% síðustu þrjá daga.
TENGDAR GREINAR: VEIKING PUNDSINS GÆTI DREGIÐ ÚR FÖLDA BRESKA FERÐAMANNA YFIR VETURINN