Hlutabréf easyJet í frjálsu falli

easyJet nytt

Verðmæti þriðja umsvifamesta flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli hefur lækkað um þriðjung frá því niðurstöður þjóðaratkvæðisgreiðslunnar í Bretlandi lágu fyrir á föstudagsmorgun. Verðmæti þriðja umsvifamesta flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli hefur lækkað um þriðjung frá því niðurstöður þjóðaratkvæðisgreiðslunnar í Bretlandi lágu fyrir á föstudagsmorgun.
Daglega fljúga þotur easyJet, stærsta lággjaldaflugfélags Bretlands, þrjár til fimm ferðir til Íslands. Ekkert annað erlent flugfélag er svo umsvifamikið hér á landi og stendur félagið undir ríflega tíund allra áætlunaferða frá landinu yfir vetrarmánuðina. Félagið hóf Íslandsflug vorið 2012 frá Luton flugvelli við Lundúnir en býður nú upp á ferðir hingað frá sjö breskum og tveimur svissneskum flugvöllum. Eftir að Ísland komst á kortið hjá easyJet hefur ferðamönnum frá Bretlandi fjölgað mjög hratt og fjöldi svissneskra túrista yfir vetrarmánuðina þrefaldaðist. Umsvif félagsins eru því mjög þýðingamikil fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Óviss framtíð

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðild Bretlands að ESB hafa hins vegar leikið hlutabréfaverð easyJet grátt því verðmæti bréfanna hefur lækkað um 33 prósent frá því á föstudagsmorgun. Ástæðan er talin vera sú að niðurstöðurnar skapa mikla óvissu um rekstur fyrirtækisins, til að mynda varðandi möguleika þess til að bjóða upp á áætlunarflug á milli áfangastaða á meginlandi Evrópu. Einnig er talið að lækkandi gengi breska pundsins dragi úr ferðalögum Breta og eins hefur gengisfellingin þau áhrif að eldsneytiskostnaður félagsins eykst umtalsvert. Forsvarsmenn easyJet höfðu heldur ekki farið leynt með það í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar að yrði niðurstaðan sú sem hún varð þá yrði félagið líklega að gera miklar breytingar á rekstri sínum og jafnvel skrá flugflotann í landi sem væri með loftferðasamning innan Evrópusambandslandanna eða í Sviss. 

Færri breskir ferðamenn

Sem fyrr segir eru umsvif easyJet sérstaklega mikil hér á landi yfir vetrarmánuðina og þá eru Bretar langstærsti ferðamannahópurinn hér á landi eða þriðjungur af heildarfjöldanum. Vægi þeirra á reykvískum hótelum yfir veturinn er ennþá hærra eða 36 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Nokkur samdráttur gæti orðið í fjölda breskra ferðamanna hér í vetur ef pundið heldur áfram að veikjast að mati Clive Stacey, forstjóra ferðaskrifstofunnar Discover the World, sem er árlega skipuleggur Íslandsferðir fyrir þúsundir Breta. Í samtali við Túrista um helgina sagði Stacey að stór hluti þeirra bresku ferðamanna sem hingað koma yfir veturna fljúgi mjög ódýrt til landsins og þessi hópur sé mjög viðkvæmur fyrir verðsveiflum líkt og hafa orðið á gengi breska pundsins. En það hefur fallið um átta prósent frá því fyrir helgi og um rúmlega fimmtung sl. ár. Þar með verður mun dýrara fyrir breska ferðamenn að ferðast um Ísland en á sama tíma mun hagstæðara fyrir íslenska ferðamenn að fara til Bretlands.