Flugmiðarnir á átta liða úrslitin í París rjúka upp í verði

paris Ile de la cite

Af þróun fargjalda til Parísar að dæma þá eru margir vongóðir um íslenskan sigur í kvöld. Af þróun fargjalda til Parísar að dæma þá eru margir vongóðir um íslenskan sigur í kvöld. 
Frá því að íslenska landsliðið tryggði sér sæti í 16 liða úrslitum Evrópukeppninnar hefur það legið ljóst fyrir að ef sigur vinnst þá á liðið næst að spila í París sunnudagskvöldið 3. júlí. Í fyrrakvöld gerði Túristi verðsamanburð á fargjöldunum þangað í kringum leikdaginn en á þeim tímapunkti lá ekki fyrir hverjir mæta sigurvegaranum í leik Íslendinga og Englendinga. Eftir leiki gærdagsins vitum við hins vegar það verða gestgjafarnir í franska landsliðinu sem verða hinum megin á vellinum.
Hvað sem því líður er ljóst að þeir sem bóka núna far til Parísar í kringum leikinn á sunnudag borga miklu meira en þeir sem ruku til og pöntuðu í fyrradag. Þá var hægt að fá sæti á tæpar 22 þúsund krónur 2. til 5.júlí með Transavia en sá miði kostar í dag 51.150 krónur. Farið með þessu fransk-hollenska flugfélagi 2. til 4. júlí hefur hins vegar hækkað úr 24.646 krónum í 89.925 kr. Munurinn er hátt í fjórfaldur. Lægstu fargjöld Icelandair og WOW air hafa líka hækkað verulega eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Vissulega hækka farmiðar oft þegar stutt er í brottför en sennilega er óhætt að skrifa svona miklar verðhækkanir á bjartsýna stuðningsmenn íslenska landsliðsins.