Núna er langódýrast til Los Angeles og San Francisco

los angeles joe cooke

Í fyrsta skipti í nærri áratug er boðið upp á beint flug héðan til Kaliforníu og farmiðarnir kosta minnst næstu daga og vikur. Í fyrsta skipti í nærri áratug er boðið upp á beint flug héðan til Kaliforníu og farmiðarnir kosta minnst næstu daga og vikur.
Jómfrúarferð WOW air til bandarísku borgarinnar San Francisco var farin í gær og í næstu viku fer félagið sína fyrstu ferð til Los Angeles. Þar með býðst á ný beint flug milli Íslands og Kaliforníu, fjölmennasta fylkis Bandaríkjanna. En Icelandair flaug til San Francisco yfir sumarmánuðina árin 2005 til 2008. Í þær ferðir notaði Icelandair breiðþotu sem tók um 260 farþega en sæti eru fyrir 350 manns í þotunum þremur sem WOW air nýtir í sínar ferðir til þessara tveggja nýju áfangastaða á vesturströnd Bandaríkjanna. Og öfugt við Icelandair þá ætlar WOW air að starfrækja flugleiðirnar allt árið um kring og fljúga 5 ferðir í viku til San Francisco en fjórar til Los Angeles. Umsvif WOW í Kaliforníu verða því miklu meiri en hjá Icelandair á sínum tíma.

Út í næstu viku og heim í byrjun júlí

Þeir sem bóka í dag flugmiða með WOW til borganna tveggja í sumar þurfa að borga á bilinu 30 til 130 þúsund krónur fyrir hvora leið nema ferðinni sé heitið út núna í júní. Í næstu viku er nefnilega hægt að fá flug héðan til Los Angeles á 19.999 krónur en í þarnæstu viku er lægsta farið 10 þúsund krónum hærra og svo rýkur það upp í júlí og lækkar varla á ný fyrr en í lok ágúst samkvæmt athugun Túrista. Farmiðar í vélarnar sem fljúga heim á ný júní er hins vegar miklu dýrara en þeir sem dvelja úti fram í aðra viku júlí komast ódýrast frá ferðalaginu til Los Angeles og borga 57 þúsund krónur fyrir báðar leiðir. Til San Francisco er hins vegar hægt að komast fyrir 19.999 krónur flesta daga í júní en flugið heim er ódýrast fyrstu dagana í júlí. Þannig er hægt að fá farmiða út og heim aftur á um 44 þúsund krónur.

Aukalega fyrir töskuna

Hjá WOW air bætist hins vegar bókunargjald við allar pantanir og farþegar greiða líka fyrir innritaðan farangur og handfarangurs sem er þyngri en 5 kíló. Fyrir stóru töskurnar er greitt 6.999 kr. fyrir hvora leið og 4.999 kr. fyrir auka handfarangursheimild. Flugið til Los Angeles og San Francisco tekur um 10 tíma og er lagt í hann rétt fyrir fjögur seinnipartinn og lent í Bandaríkjunum skömmu fyrir klukkan sex að staðartíma. Á heimleiðinni er áætluð koma til Íslands rétt fyrir fimm að morgni.
SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU Í LOS ANGELES EÐA SAN FRANCISCO.