Sætin í Íslandsfluginu nýtast einna best

Framkvæmdastjóri eins stærsta flugfélags Evrópu gæti ekki verið ánægðari með gang mála í fluginu til Íslands.

Lufthansa schindler

„Árangurinn á síðasta ári var eiginlega undraverður. Vélarnar voru fullar frá fyrsta flugi og til þess síðasta og sætanýtingin ein sú hæsta af öllum þeim flugleiðum sem Lufthansa starfrækir,” segir Christian Schindler, framkvæmdastjóri Lufthansa, aðspurður um Íslandsflug félagsins á síðasta ári. Þá bauð þetta stærsta flugfélag Þýskalands, í fyrsta sinn, upp á áætlunarferðir hingað frá Frankfurt og Munchen og samtals nýttu 25 þúsund farþegar sér ferðirnar.
Árin á undan flaug félagið hingað frá Dusseldorf, Hamborg og Berlín yfir aðalferðamannatímabilið.

Farþegarnir koma víða að

Í sumar fjölgar Lufthansa ferðunum frá Munchen og verða þær þá þrjár í viku líkt og frá Frankfurt en í þessum tveimur borgum eru umsvif félagsins mest. Þaðan starfrækir það til að mynda hátt í 200 flugleiðir og Schindler segir það endurspeglast í farþegahópnum sem nýtir sér Íslandsflugið. „Þýskir farþegar skipa þar um fjögur af hverjum tíu sætum, um helmingur er frá nágrannalöndunum í Mið- og Austur-Evrópu, Asíubúar eru um fimm prósent farþega en hlutfall Íslendinga er ögn lægra. Í þessari góða blöndu endurspeglast styrkleiki leiðakerfis Lufthansa.”

Enn bið eftir heilsársflugi

Þrátt fyrir að flugið hingað til lands gangi vel þá er ekki útlit fyrir að þýska flugfélagið hefji vetrarflug til Keflavíkurflugvallar á næstunni. Schindler segir erfitt að auka umsvifin mjög hratt, til þess þurfi til að mynda að ráða fleiri áhafnir og bæta í flugflota. „Ef þetta sumar gengur líka vel, líkt og útlit er fyrir miðað við bókanir, þá er samt aldrei að vita hvað verið gerum þarnæsta vetur.”

Nýtt verðkerfi

Í fyrra varð stefnubreyting hjá Lufthansa þegar félagið byrjaði að selja farmiða án farangursheimildar, líkt og lággjaldaflugfélögin gera, en að sögn Schindler hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel. Hann tekur þó fram að matur og drykkur fylgi líka frítt með ódýrustu sætunum og að ávallt eigi að vera á boðstólum farmiðar í öllum þremur verðflokkunum sem Lufthansa bjóði uppá. Farþegar sem bóki með stuttum fyrirvara neyðist því ekki til að bóka dýrari verðflokkana.