Fækka ferðunum til Tyrklands um nærri helming

nazar c

Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar ætluðu að bjóða upp á vikulegar brottfari héðan til Tyrklands í allt sumar. Forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar ætluðu að bjóða upp á vikulegar brottfarir héðan til Tyrklands í allt sumar. Nú hafa þeir hins vegar fellt niður allt flug frá miðjum júlí.
„Sala á ferðum til Tyrklands gengur hvergi vel og við sjáum samdrátt upp á 30 til 40 prósent á öllum okkar mörkuðum,“ segir Kemal Yamanlar, forstjóri ferðaskrifstofunnar Nazar, sem sérhæfir sig í sólarlandaferðum til Tyrklands frá öllum Norðurlöndunum. Ein helsta ástæðan fyrir þessari minnkandi eftirspurn er, að mati Yamanlar, sú að nú ríkir almenn ferðahræðsla meðal fólks. Meðal annars vegna hryðjuverkanna í Tyrklandi en einnig París og Brussel. Af þessum sökum hefur Nazar fellt niður allt flug frá Íslandi til Antalya í Tyrklandi frá miðjum júlí og verða brottfarirnar því aðeins sjö í sumar en upphaflega stóð til að fara tólf ferðir, frá byrjun júní og fram til loka ágústmánaðar. Þessa dagana eru starfsmenn Nazar að hafa samband við þá farþega sem áttu bókuð sæti í ferðunum seinni hlutann í júlí og ágúst.
Yamanlar segir minnkandi eftirspurn eftir Tyrklandsferðum hér á landi ekki vera einsdæmi því staðan sé svipuð á hinum norrænu mörkuðunum nema í Noregi þar sem samdrátturinn er ennþá meiri en þar vegur fallandi gengi norsku krónunnar líka þungt. 

Helmingi færri farþegar

Átökin í nágrannalandinu Sýrlandi hafi einnig haft slæm áhrif á tyrknesku ferðaþjónustuna og sérstaklega ferðabann Rússlandsforseta. En eftir að tyrkneski herinn skaut niður rússneska herþotu við landamærin við Sýrland í vetur þá bannaði Pútín Rússlandsforseti þegnum sínum að ferðast til landsins. Það var mikið áfall því rússneskir ferðamenn voru tíðir gestir á tyrkenskum sólarströndum og ástandið versnaði því enn frekar. Í vor gripu tyrknesk stjórnvöld því til þess ráðs að styrkja ferðaskrifstofur og nam styrkurinn rúmum 900 þúsund íslenskum krónum á hverja flugvél eða um 5000 krónur á hvern farþega í meðalstórri farþegavél. Þessi tímabundni styrkur dugði þó skammt því í maí síðastliðnum fækkaði farþegum á Antalya flugvelli í Tyrklandi um 52 prósent. En um þann flugvöll fara margir sólarstrandargestir.

Ódýrt fyrir þá sem fara

Þessi mikli samdráttur í komum ferðamanna hefur slæm keðjuverkandi áhrif á allan efnahag Tyrklands að sögn Yamanlar. Hann er þó sannfærður um að ferðaþjónustan þar í landi rétti úr kútnum á næstu árum en hann á hins vegar von á því að næsta sumar verði álíka og það sem nú er hafið. Yamanlar bætir því við að þeir sem kaupa í dag ferðir til Tyrklands hjá Nazar komist út fyrir lítið því verðið hafi lækkað umtalsvert.