Við þurfum ekki að vera bara móttakendur vaxtar

erlendir ferdamenn

Ferðamálastjóri kallar eftir umræðum um hvað ferðaþjónustan getur lagt af mörkum til samfélagsins. Ferðamálastjóri kallar eftir umræðum um hvað ferðaþjónustan getur lagt af mörkum til samfélagsins. 
Jafnt og þétt berast fregnir af tugprósenta aukningu í komum ferðamanna til landsins og forstjóri Icelandair Group talaði nýverið um að ferðamenn gætu orðið um 5 milljónir á ári í framtíðinni. Eða þrefalt fleiri en búist er við í ár. Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir hins vegar mikilvægt að líta á ferðaþjónustuna sem atvinnugrein sem hægt sé að hafa áhrif á og við þurfum ekki bara að vera móttakendur vaxtar. „Þá er svolítið skrýtið að umræðan um ferðaþjónustuna sé þannig að þetta sé einhver holskefla fjölgunar, sem við getum með engu móti stýrt, heldur þurfum bara að bregðast við með stækkun, fjölgun og aukningu – í staðinn fyrir að velta fyrir okkur: Bíddu! Hvernig getum við formað þessa atvinnugrein eins og aðrar.“ Þetta sagði ferðamálastjóri á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Hvað getur ferðaþjónustan gert fyrir samfélagið?

Ólöf Ýrr benti jafnframt á sérstöðu ferðaþjónustunnar því hún væri í nánum tengslum við fólk og samfélagið í heild. Þess vegna þurfi að ræða hversu mikið mark hún setji á landið, samfélagið og okkar daglega líf. „Við erum í þeirri aðstöðu að geta velt fyrir okkur ekki eingöngu hvað leggja þurfi til ferðaþjónustunnar – heldur líka hvað við viljum að ferðaþjónustan geri fyrir íslenskt samfélag.“ 
Viðtal Morgunvaktarinnar við ferðamálastjóra má nálgast hér.