Yfirvinnubannið skaðlegt

kef icelandair wow

Forsvarsmenn Icelandair og WOW air segja ástandið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar slæmt vegna vinnudeilu flugumferðarstjóra. Um helmingur farþega Icelandair og WOW air eru skiptifarþegar og sá hópur er viðkvæmur fyrir seinkunum líkt og þeim sem orðið hafa á Keflavíkurflugvelli vegna deilu flugumferðarstjóra og Isavia.
„Þetta hefur verið óþolandi ástand og óskiljanlegt að ekki hafi verið gripið til aðgerða af hálfu hins opinbera fyrr,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, aðspurður um yfirvinnubann flugumferðastjóra sem sett hefur millilandaflug úr skorðum síðustu vikur. Ríkisstjórnin samþykkti í dag að setja lög á aðgerðirnar en endurtekið hefur næturumferð um Keflavíkurflugvöll stöðvast vegna deilunnar.
Fjöldi áætlunarferða á vegum Icelandair og WOW air, frá N-Ameríku, hefur því seinkað og það hefur meðal annars valdið óöryggi hjá farþegum sem hafa óttast að missa af tengiflugi vegna tafanna.
En um helmingur farþega félaganna tveggja eru skiptifarþegar sem millilenda aðeins hér á landi á leið sinni yfir hafið. 

Þurfa að greiða bætur

Það er ekki eingöngu heimflugið frá Ameríku sem hefur raskast því vinnudeilan hefur líka sett úr skorðum nær alla dagskrá flugfélaganna. Samkvæmt upplýsingum frá WOW hefur ástandið riðlað ferðaáætlun um 20 þúsund farþega og hefur félagið þurft að greiða bætur vegna seinkanna sem verða daginn eftir lokun þar sem áhrifanna gætir löngu eftir að umferð kemst í eðlilegt horf. Sjá forsvarsmenn WOW fram á umtalsverðan kostnað vegna málsins og að deilan gæti líka haft áhrif á komu- og brottfarartíma félagsins á erlendum flughöfnum. „Það gengur ekki upp, sama hvaða starfsstétt á í hlut, að hægt sé setja allt flug og samgöngur til og frá landinu í uppnám. Áhrifin af þeirra aðgerðum eru gríðarlega mikil og neikvæð fyrir fjölda fyrirtækja og einstaklinga sem eru ekki hluti að deilunni og hafa þar af leiðandi engan möguleika á að leysa hana,” segir Skúli Mogensen.

Skaðar ímynd flugvallarins og flugfélaganna

Þrír af hverjum tíu farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru skiptifarþegar en hlutfall þessa farþegahóps er til dæmis um fimmtungur á Kaupmannahafnarflugvelli. Vægi tengifarþega er því mjög hátt hér á landi. Telja forsvarsmenn íslensku flugfélaganna að yfirvinnubannið hafi skaðað ímynd íslensku flughafnarinnar og flugfélaganna tveggja? „Tvímælalaust,” segir Skúli og bendir á að Keflavíkurflugvöllur, WOW og Icelandair séu öll í harðri samkeppni við flugvelli og flugfélög í löndunum í kringum okkur um farþega á leið yfir hafið. „Það er alveg ljóst að ef ekki er hægt að tryggja starfsfrið á Keflavíkurflugvelli þá gætum við stórskaðað framtíðarhorfur Íslands sem tengivallar og það myndi hafa mjög neikvæðar horfur á alla ferðaþjónustu í landinu. Þá þyrfti nefnilega að draga verulega úr tíðni ferða til til margra áfangastaða. Guðjón Arngrímsson segist auðvitað vona að áhrifin af vinnudeilunni verði ekki varanleg. „En það er enginn vafi á því að upplifun farþega á Keflavíkurflugvelli er ekki sú sem hún á að vera nú þegar svona aðgerðir standa yfir.”