179 Íslendingar eru staddir í sólarlandaferð í Tyrklandi

tyrkland strond830

Búist er við að heimferð íslenskra ferðamanna frá Antalya verði á áætlun á miðvikudag. Búist er við að heimferð íslenskra ferðamanna frá Antalya verði á áætlun á miðvikudag.
Átökin sem áttu sér stað í kringum valdaránið í Tyrklandi i gærkvöldi og í nótt voru að langmestu leyti bundin við Istanbúl og höfuðborgina Ankara og er tala látinna komin upp í nærri 200 samkvæmt síðustu fréttum. Í ferðamannabæjunum við strandlengjuna gekk lífið sinn vanagang nema í Marmaris en þar var forseti landsins staddur og munu hermenn hafa gert árangurslausa tilraun til að ná til hans.

Farþegar rólegir

Ferðaskrifstofan Nazar er sú eina hér á landi sem býður upp á sólarlandaferðir til Tyrklands og núna eru 179 Íslendingar, þar af 49 börn, á vegum ferðaskrifstofunnar í strandbæjunum við Antalya sem er við suðausturströnd landsins. Um 700 kílómetrum frá Istanbúl og tæpum 500 km fjarri Ankara. Þessir íslensku farþegar eru í síðustu ferð Nazar til Tyrklands í ár því fyrr í sumar felldu forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar niður allar sólarlandaferðir frá Íslandi til Tyrklands frá og með miðjum júlí vegna dræmrar sölu. Reyndar seldist upp í síðustu ferðirnar og því kemur full vél hingað til lands á miðvikudag. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, er staddur í Tyrklandi og í samtali við Túrista segir hann að ekki sé að sjá að farþegar Nazar, þar á meðal þeir íslensku, séu órólegir vegna atburða næturinnar og að lífið á ferðamannasvæðunum gangi sinn vanagang. Þar hafi enda ekki komið til neinna átaka í gær en hann útilokar þó ekki að mótmæli hafi brotist út á einhverjum stöðum. Að sögn Yamanlar liggur flug ennþá niðri en hann vonast til að samgöngurnar komist í lag mjög fljótt og að flugið til Íslands verði þá á réttum tíma á miðvikudag. Hann segir þó að akkúrat núna sé ekki hægt að segja með vissu um hvenær flugvellir opni alveg á ný.

Mæla ekki með Tyrklandsreisum

Nazar selur ferðir til Tyrklands frá öllum Norðurlöndunum og segir Yamanlar að eftir atburðina í gærkveldi hafi verið ákveðið að gefa farþegum kost á að afbóka ófarnar ferðir enda mæli norrænu utanríkisráðuneytin ekki lengur með ferðum til Tyrklands eftir atburði næturinnar. Hann segir að í dag hafi margir viðskiptavinir haft samband og séu það aðalllega þeir sem eiga bókaðar ferðir síðar í sumar sem eru órólegir. En sem fyrr segir verða ekki farnar fleiri ferðir á vegum Nazar frá Íslandi til Tyrklands í ár.