Banna bjór fyrir morgunflug

Frelsi þeirra sem vilja fá sér áfengi fyrir flugtak hefur verið skert á flugstöðinni í Bergen. 

bjor skal yutacar

Það er ekki bara farþegar í Leifsstöð sem mæta á barinn í morgunsárið enda hefð fyrir því víðar að skála áður en haldið er til útlanda. Skiptir þá engu hvort klukkan er sjö að kveldi eða morgni. Borgaryfirvöld í Bergen í Noregi vilja hins vegar draga úr morgundrykkju flugfarþega og hafa bannað vínveitingar fram til klukkan átta á morgnanna. „Þetta snýst ekki um að ég haldi að fólk drekki sig fullt á flugvellinum klukkan sex að morgni. En að fá sér fyrsta sopann svona snemma gerir það að verkum að drykkjan byrjar fyrr og ég held að margir farþegar, t.d. í leiguflugi til sólarlanda, hafi upplifað verri flugferðir vegna samblands morgundrykkju á flugstöð og sölu áfengis um borð,” segir Rebekka Ljosland, borgarfulltrúi Kristilega flokksins í borgarstjórn Bergen í viðtali við Bergens Tidende. „Hver hefur líka þörf fyrir áfengi klukkan sex að morgni?,” bætir Ljosland við en hún fer með áfengismálin í þessu næststærsta sveitarfélagi Noregs. Þar í borg er bann við sölu á áfengi fyrir klukkan átta á morgnana en sú regla hefur hins vegar ekki verið í gildi í flugstöðinni sjálfri fyrr en nú. „Það er engin ástæða til að heimila áfengi frá klukkan sex jafnvel þó fyrri borgarstjórnir hafi gert það,” segir Ljosland.

Ósáttir farþegar

Þetta nýja áfengisbann á Bergen flugvelli hefur vakið upp hörð viðbrögð meðal farþega og hefur norskum fjölmiðlum gengið illa að finna viðmælendur sem eru stuðningsmenn bannsins. Hins vegar hafa margir andstæðingar þess tjáð sig, þeir segja bannið lykta af forræðishyggju og vera óþarfa enda hafi áfengisdrykkja á flugstöðinni ekki verið vandamál.
Í innslagi Verdens Gang hér fyrir neðan er svo rætt við nokkra morgungesti á börunum í flugstöðvunum í Ósló og Bergen og eins og sjá má eru menn ívið léttari í höfuðborginni.
Þess má geta að lokum að vélar Icelandair og Norwegian sem fljúga beint milli Keflavíkurflugvallar og Bergen leggja í hann frá norskum borginni eftir klukkan átta að morgni. Farþegar á leið hingað frá vesturströnd Noregs geta því fengið sér sopa áður en haldið er út í vél.