Brexit hefur ekki áhrif á Íslandsflug easyJet

easyjet islenski fani

Ísland er orðinn mun dýrari áfangastaður fyrir Breta en forsvarsmenn easyJet verða hins vegar ekki varir við minni áhuga á ferðum hingað til lands. Ísland er orðinn mun dýrari áfangastaður fyrir Breta en forsvarsmenn easyJet verða hins vegar ekki varir við minni áhuga á ferðum hingað til lands.
Í mars 2012 hóf breska flugfélagið easyJet að fljúga hingað til lands og bauð þá upp á þrjár ferðir í viku frá Luton flugvelli við London. Umsvif fyrirtækisins hafa hins vegar margfaldast síðustu ár og fóru þotur easyJet 149 ferðir til Íslands í mars síðastliðnum frá sjö breskum og tveimur svissneskum flugvöllum. Ekkert erlent flugfélag er álíka stórt hér á landi.
Mikilvægi easyJet fyrir íslenska ferðaþjónustu er því mikið og sérstaklega utan háannatíma. Til að mynda komu hingað fleiri breskir túristar í febrúar sl. en allt síðasta sumar og fjöldi svissneskra ferðamanna þrefaldaðist þegar félagið bauð upp á vetrarferðir hingað frá Genf og Basel.

Reykjavík ört vaxandi markaður

Í kjölfar þjóðatkvæðagreiðslunnar um aðild Breta að ESB hrundi hins vegar hlutabréfaverð easyJet enda höfðu forsvarsmenn félagsins lýst því yfir að brotthvarf Bretlands úr bandalaginu myndi hafa slæm áhrif og að þetta stærsta lággjaldaflugfélag landsins. Mikil lækkun breska pundsins undanfarnar vikur er líka talin geta slegið mjög á eftirspurn Breta eftir ferðalögum til útlanda. 
Það eru hins vegar engar vísbendingar í dag um að breskir farþegar easyJet séu farnir að snúa baki við Íslandsferðum að sögn Andy Cockburn, talsmanns easyJet. „Eftirspurn eftir flugi okkar til Íslands heldur áfram að vera mikil. Síðustu ár höfum bætt við nýjum flugleiðum til Íslands og Reykjavík er ennþá ört vaxandi markaður fyrir easyJet. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar mun ekki hafa nein efnisleg áhrif á stefnu okkar sem byggist á því að fókusera á leiðandi flugvelli og svæði sem mikil eftirspurn er eftir.”

Ríflega þriðji hver hótelgestur frá Bretlandi

Kannanir sýna hins vegar að neytendur í Bretlandi eru almennt mun svartsýnni á framtíðina núna en þeir hafa verið um langt árabil og það gæti meðal annars haft áhrif á eftirspurn eftir utanlandsferðum. Verðlag hér á landi hefur til dæmis hækkað um nærri fjórðung í pundum talið sl. ár. Það á til dæmis við kaup á gistingu en síðastliðinn vetur kom ríflega 36 prósent gesta á hótelum höfuðborgarinnar frá Bretlandi samkvæmt tölum Hagstofunnar. 
TENGDAR GREINAR: Veiking pundsins gæti dregið úr vetrarferðum Breta – Erfitt að meta langtímaáhrif Brexit á Icelandair Group