Ekki staðið vörð um réttindi Frakklandsfara

paris yfir

Skortur á eftirliti með sölu á aukaferðum til Parísar um síðustu helgi þrátt fyrir skýrar reglur.  Skortur á eftirliti með sölu á aukaferðum til Parísar um síðustu helgi þrátt fyrir skýrar reglur. 
Það voru ekki aðeins Icelandair, WOW air og íslenskar ferðaskrifstofur sem stóðu fyrir aukaferðum til Parísar vegna leiks Íslendinga og Frakka í borginni á sunnudagskvöld. Einstaklingar og fyrirtæki sem hingað til hafa ekki komið nærri ferðaþjónustu buðu upp jafnframt upp á flugferðir líkt og fram kom í fjölmiðlum í aðdraganda leiksins. Flugsætin seldust hratt upp þessar aukaferðir, til að mynda varð uppselt í flug Netmiða og Auglýsingastofunnar 23 á tveimur sólarhringum samkvæmt frétt Mbl.is.

Nauðsynlegt að herða eftirlit

Þeir sem selja eða skipuleggja ferðalög út í heim verða að hafa leyfi frá Ferðamálastofu líkt og segir í tilkynningu sem birtist á heimasíðu stofnunarinnar sl. miðvikudag. Þessar aukaferðir til Parísar voru hins vegar farnar og líkt og kom fram í frétt Rúv í gær þá stefnir í hópmálsókn vegna flugsins á vegum Netmiða þar sem brottför frá París var flýtt um rúman hálfan sólarhring með skömmum fyrirvara. Á Facebook síðu þar sem sú ferð er kynnt kemur fram að einnig sé hægt að kaupa miða á leikinn og heildarverðið var þá á bilinu 300 til 330 þúsund krónur. Svo virðist sem flugsæti og miðar hafi verið seld í sitthvoru lagi og því var ekki um pakkaferð að ræða en réttindi farþega í þess háttar ferðum eru meiri en þeirra sem setja saman sínar eigin ferðir. En þó aðeins ef keypt er af aðila með ferðaskrifstofuleyfi. Og ekki hefur farið framhjá neinum að tugir Íslendinga fengu aldrei miðana sem þeir keyptu á leikinn í París afhenta og mun það mál vera til rannsóknar hjá frönsku lögreglunni.

Myndi ekki gerast á öðrum mörkuðum

Atburðarás síðustu daga kallar hins vegar ekki á skýrari reglur um sölu á utanlandsferðum að mati Guðrúnar Sigurgeirsdóttur, hjá ferðaskrifstofunni Vita, og Þórunnar Reynisdóttur, hjá Ferðaskrifstofu Íslands. „Það er mjög auðvelt að koma í veg fyrir svona rugl með því að fara fram á að þeir aðilar sem selja þessa þjónustu sýni fram á að þeir séu með leyfi,“ bætir Þórunn við. 
Aðspurð um hvort hún telji að það hafi gripið um sig gullgrafaraæði í síðustu viku segir Guðrún að svo megi segja en bendir jafnframt á að eftirspurn eftir flugi og miðum á leikinn hafi verið meira en framboð og þá sjái menn tækifæri. „Ég veit ekki hvort þetta er spurning um óheiðarleika eða hvort menn meintu vel en kunni ekki til verka.“ Þórunn segir ljóst að einhverjir aðilar hafi séð þarna tækifæri til að afla sér tekna eða fá fría auglýsingu á sér og sinni þjónustu jafnvel þó þeir hafi ekki verið með neitt flug í hendi. Þórunn gagnrýnir líka eftirlitsaðila og fjölmiðla fyrir sinn þátt í málinu. „Á öðrum mörkuðum myndu t.d aðilar eins og Ferðamálastofa láta vita af því opinberlega að viðkomandi sé ekki með leyfi og jafnvel myndi Neytendstofa fylgja því eftir. Blaðamenn ættu líka kanna bakgrunn viðkomandi aðila og hvort söluferlið sé í lagi en ekki slá því aftur og aftur upp á forsíðu að einhver sé að reyna að finna flugvél og svo er bara loft á bakvið fréttina,“ segir Þórunn.