Færri komust til Tyrklands en vildu

NazarPegasos

Frá því að forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar ákváðu að fækka ferðunum til Tyrklands í sumar hefur síminn varla stoppað. Frá því að forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar Nazar ákváðu að fækka ferðunum til Tyrklands í sumar hefur síminn varla stoppað.
Síðustu tvö sumar hefur ferðaskrifstofan Nazar boðið upp á vikulegar ferðir héðan á tyrkneskar sólarstrendur. En vegna minnkandi eftirspurnar eftir Tyrklandsreisum hér á landi og víðar þá var ákveðið að fækka ferðunum í sumar um helming líkt og Túristi greindi frá. Að sögn Kristínar Lindar Andrésdóttur, markaðsstjóra Nazar, hafa síðustu tvær brottfarirnar til Tyrklands hins vegar selst upp og færri komust að en vildu í flugið í þessari viku. Og núna eru aðeins sárafá sæti laus í lokaferð sumarsins sem farin verður á miðvikudag.

Bóka með stuttum fyrirvara

Kristín Lind segir greinilegt að margir hafi verið að bíða fram á síðustu stundu með að bóka sólarlandaferðir sumarsins. „Það er miður að fólk hafi vaknað svona seint því það var fyrst eftir að við vorum búin að aflýsa ferðum að allt fór á fullt og síminn hefur varla stoppað síðan,” bætir Kristín við. Ekki er hins vegar mögulegt að snúa við fyrri ákvörðun og fjölga ferðum á ný en starfsfólk Nazar er hins vegar farið að taka á móti pöntunum á Tyrklandsferðum fyrir næsta sumar.
TENGDAR GREINAR: ÞEGAR BÖRNIN RÁÐA FERÐINNI