Ný flugleið til Ítalíu opnar næsta sumar

trieste castello Miramare photo marco milani

Þó sumarið sé tæplega hálfnað þá er nú þegar hægt að bóka flugsæti með Primera Air næsta sumar. Þar á meðal til ítölsku borgarinnar Trieste, skammt frá Feneyjum. Þó sumarið sé tæplega hálfnað þá er nú þegar hægt að bóka flugsæti með Primera Air næsta sumar. Þar á meðal til ítölsku borgarinnar Trieste, skammt frá Feneyjum.
Ítalía er eitt vinsælasta ferðamannaland Evrópu en þrátt fyrir það er framboð á áætlunarflugi þangað frá Íslandi lítið og hefur takmarkast við sumarflug til Mílanó og Rómar. Á þessu verður breyting næsta sumar þegar þotur Primera Air munu á þriðjudagsmorgnum fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Trieste sem er í norðausturhluta Ítalíu. Jómfrúarferðin verður farin 30. maí og síðasta heimflugið til Íslands er 29. ágúst. Ódýrasta farið, báðar leiðir, kostar í dag 52.990 kr. samkvæmt athugun Túrista en borga þarf 4.900 kr. aukalega fyrir farangur hvora leið.  

Sólbrúnir og kaffiþyrstir Triestini

Frá flugvellinum í Trieste tekur aðeins tæpan einn og hálfan tíma að keyra til Feneyja svo dæmi sé tekið. Trieste sjálf hefur einnig sótt í sig veðrið sem áfangastaður ferðamanna og oft kölluð „Litla Vín við hafið“. Ástæðan er sú að byggingarstíll borgarinnar minnir um margt á höfuðborg Austurríki enda tilheyrði Trieste grönnum sínum í norðri fram að fyrri heimstyrjöld. Íbúar borgarinnar, hinir svokölluðu Triestini, bera því margir ættarnöfn sem eru algengari í löndum Mið-Evrópu en í suðurhlutanum. En vegna þess hve sólríkt er á þessum slóðum hefur því verið haldið fram að hvergi á Ítalíu sé að finna sólbrúnna fólk en einmitt í Trieste. Þar hefur svo kaffiinnflutningur og framleiðsla blómstrað um langt skeið og þaðan kemur til að mynda kaffimerkið Illy.   

Örstutt til nágrannanna

Staðsetning Trieste er sérstök því borgin er á landræmu sem er aðeins nokkrir kílómetrar á breiddina þar sem hún er mjóst. Og frá miðborg Trieste eru aðeins 10 kílómetrar að landamærum Slóveníu og það tekur aðeins rúman klukkutíma að keyra þaðan til Ljubliana. Þessi nýja flugleið auðveldar hins vegar ekki bara aðgengið að Slóveníu fyrir íslenska túrista heldur líka Króatíu en þangað eru aðeins um 35 kílómetrar frá ítölsku borginni. 

Fjórir spænskir áfangastaðir líka komnir í sölu

Primera Air, sem er systurfélag ferðaskrifstofunnar Heimsferða, hefur síðustu ár aukið framboð sitt á ferðum frá Íslandi og samkvæmt upplýsingum frá Anastasija Visnakova, framkvæmdastjóra sölu-og markaðsmála Primera Air, þá hefur félagið nú þegar hafið sölu á flugi sínu frá Íslandi næsta sumar. Á nýrri heimasíðu Primera Air er því í dag hægt að bóka flug til Alicante, Tenerife, Barcelona og Malaga auk Trieste.
Með ódýrustu fargjöldum Primera Air fylgir aðeins handfarangur en borga þarf 4.900 krónur fyrir að innrita töskur. Einnig er hægt að velja dýrari farmiða þar sem farangur, sætisval, matur og jafnvel breytingar eru innifaldar.