Verður Hvassahraunsflugvöllur „ICE“?

Ef forsvarsmenn Icelandair ákveða að hefja framkvæmdir við nýjan flugvöll í Hvassahrauni þá þarf að finna honum einkennisstafi.

icelandair 767 757

Allir flugvellir eru með þriggja stafa kóða sem gefinn er út af IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga. Þannig stendur KEF fyrir Keflavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöllur er AEY og sá í Vatnsmýrinni er RKV. RVK er hins vegar notað fyrir flugvöllinn í Rørvik í Noregi. Allt eru þetta einkennisstafir sem sækja í staðarheitin líkt og gerist og gengur víða um heim. En hvaða þriggja stafa auðkenni væri hægt að nota um flugvöll í Hvassahrauni en samkvæmt frétt Fréttatímans þá ætla stjórnendur Icelandair Group að kanna möguleika á uppbyggingu nýs flugvallar í hrauninu en Rögnunefndin svokallaða mælti einnig með þessari staðsetningu í áliti sínu sem birt var í fyrra.  

ICE og HFJ á lausu

Ekki væri hægt að nota fyrstu þrjá stafina í heiti Hvassahrauns í nýja kóðanum því HVA er frátekið í skrá IATA fyrir flughöfnina í Analalava á Madakaskar. Og ef kenna ætti völlinn við nærliggjandi sveitarfélög, þ.e. Voga eða Hafnarfjörð þá er kóðinn VOG í dag notaður fyrir flughöfnina í Volgograd í Rússlandi og Kaliforníuflugvöllurinn við Half Moon Bay er með einkennistafina HAF. Hinsvegar er HFJ á lausu. En þar sem það er flugfélagið Icelandair sem kannar uppbyggingu við Hvassahraun liggur kannski beinast við að kenna völlinn við flugfélagið sjálft og svo heppilega vill til að enginn flugvöllur í heiminum notast við IATA-heitið ICE. Forsvarsmenn Icelandair ættu því kannski að hafa hraðar hendur og tryggja sér þennan flugvallarkóða sem fyrst og geta þannig tengt flugvöllinn, líkt og flugfélagið sjálft, við heiti landsins.

Flugfélögin fljúga ekki til Keflavíkur

Sem fyrr segir er KEF kóðinn fyrir Keflavíkurflugvöll. Þessi helsta samgöngumiðstöð landsins er þó langoftast kennd við Reykjavík, ekki bara af erlendum flugfélögum og flugstöðvum heldur líka íslensku flugfélögunum líkt og Túristi greindi frá. Staðarheitið „Keflavik“ er þannig ekki að finna á erlendum heimasíðum Icelandair og hjá WOW er aðeins hægt að bóka flug til Reykjavik en ekki Keflavíkur. Í fyrrnefndri skrá IATA segir líka að flugvallarkóðinn KEF eigi við Keflavik Airport í Reykjavik en ekki Sandgerði eða Reykjanesbæ.