Keflavíkurflugvöllur verðlaunaður enn á ný

fle 860

Þrátt fyrir stóraukna umferð og framkvæmdir þá þykir íslenska flughöfnin áfram skara fram úr. Þrátt fyrir stóraukna umferð og framkvæmdir þá þykir íslenska flughöfnin áfram skara fram úr.
Farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur fjölgað um tugi prósenta á milli mánaða um langt skeið. Af þeim sökum hefur þurft að breyta og stækka flugstöðvarbygginguna og því hefur fylgt töluvert ónæði fyrir farþega og ekki síður starfsfólk. Engu að síður var Keflavíkurflugvöllur á dögunum valinn besti flugvöllur Evrópu í flokki flughafna með færri farþega en 5 milljónir.  Verðlaunin eru veitt af alþjóðasamtökum flugvalla í Evrópu (ACI Europe) en innan samtakanan eru yfir 500 flugvellir í 45 löndum.

Mikilvægt að vera í fremstu röð

Samkvæmt tilkynningu frá Isavia eru verðlaun ACI veitt fyrir góðan árangur í flugvallarrekstri og er litið til þátta eins og þjónustu við farþega, uppbyggingu á mannvirkjum, umgjörð verslunar- og veitingasvæða, öryggisleit, samfélags- og umhverfismál, rekstur flugbrauta, flugumferðarstjórn og fjölda áfangastaða sem í boði eru. Dómnefndin tilgreindi sérstaklega að vel væri staðið að rekstri íslenska flugvallarins á sama tíma og farþegaaukningin er gríðarleg. „Á sama tíma og farþegaaukning um flugvöllinn er yfir 30 prósent á ári þá er starfsfólk okkar að koma okkur í fremstu röð í samkeppni við aðra flugvelli. Álagið á vellinum er gríðarlegt út af þeirri aukningu sem hér hefur orðið og því afar ánægjulegt að hægt sé að viðhalda háu þjónustustigi á sama tíma. Fyrir Isavia er mikilvægt að flugvöllurinn sé í fremstu röð og dómnefndin hrósar okkur fyrir fjölmarga þætti í rekstri hans,“ er haft eftir Birni Óla Haukssyni, forstjóri Isavia, í tilkynningunni.

Fjöldi viðurkenninga

Á síðustu árum hefur Keflavíkurflugvöllur hlotið fjölda viðurkenninga frá Alþjóðasamtökum flugvalla. Hann var valinn besti flugvöllur í Evrópu í þjónustu við farþega árin 2009 og 2014, og með bestu þjónustu í Evrópu í flokki flugvalla með undir 2 milljónir farþega árið 2011 og var auk þess valinn á heiðurslista Alþjóðasamtaka flugvalla í Evrópu árið 2014.