Nefna flugvöllinn í höfuðið á Christiano Ronaldo

ronaldo madeira

Á Madeira hafa menn ekki undan að heiðra þekktasta núlifandi son eyjunnar.
Portúgalir urðu Evrópumeistarar í knattspyrnu fyrr í þessum mánuði og þar lék fyrirliðinn Christiano Ronaldo stórt hlutverk þó hann hafi reyndar verið borinn meiddur af velli í byrjun úrslitaleiksins. Ronaldo þessi er einn þekktasti knattspyrnumaður í heimi og um leið stolt íbúa á portúgölsku eyjunni Madeira eins og ekki fer víst framhjá þeim sem heimsækja höfuðstaðinn Funchal. Þar má nefnilega finna sérstakt Christiano Ronaldo safn og hótel og fyrir tveimur árum var reist 3 metra bronsstytta af kappanum. Nýjasti þakklætisvotturinn er ekki síður eftirtektarverður því fyrir helgi ákváðu sveitarstjórnarmenn á Madeira að endurnefna aðalflugvöllinn og verður hann hér eftir kallaður Christiano Ronaldo International Airport Madeira. 

Madeira ekki á kortinu hjá íslenskum ferðaskrifstofum

Allt árið um kring streyma sólþyrstir Íslendingar til spænsku eyjanna Kanarí og Tenerife sem liggja um 400 kílómetrum sunnar í Atlantshafinu en Madeira. Þangað væri því styttra að fljúga en til spænsku eyjanna en þrátt fyrir það virðist Madeira aldrei komast á kortið hjá íslenskum ferðafrömuðum. Öfugt við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum en þaðan má t.d. finna reglulegar ferðir til Madeira.