Óábyrgt að kanna ekki Hvassahraun

Forstjóri Icelandair Group segir fyrirtækið ekki geta annað en kannað nýjar staðsetningar fyrir innanlandsflugið enda liggi fyrir vilji borgaryfirvalda að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýri.

flugtak 860 a
Mynd: Isavia

„Það er afar mikilvægt að ekki komi hik í þá uppbyggingu sem nú á sér stað í Keflavík og að ekki komi rask á þjónustuna sem þar er veitt. Það er mikilvægast núna,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, aðspurður um hvort athuganir Icelandair á flugvallarstæði við Hvassahraun setji áform um uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar úr skorðum. Björgólfur tekur þar með undir þá skoðun Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, að nauðsynlegt sé að halda áfram að vinna að langtímauppbyggingu Keflavíkurflugvallar sem kynnt var fyrr á árinu. En líkt og Túristi greindi frá í morgun þá hefur forstjóri WOW uppi efasemdir um þreifingar Icelandair við Hvassahraun.

Unnið út frá skýrslu Rögnunefndarinnar

Ástæðan þess að forsvarsmenn Icelandair vilja kanna hvort Hvassahraun gangi sem flugvallarstæði er sú að í skýrslu Rögnunefndarinnar svokölluðu, sem Icelandair Group átti aðild að, kemur fram að flugvallarskilyrði við Hvassahraun verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum. Björgólfur segir að prófanir muni hefjast í haust þegar veður hentar og lægðir koma upp að landinu og mun verkefnið standa yfir í einhverja mánuði. Hann segir hins vegar of snemmt að segja til um hver kostnaður við nýja flughöfn við Hvassahraun kynni að verða eða hver framkvæmdastíminn yrði.

Meirihlutinn vill flugvöllinn burtu

Björgólfur hefur haldið því fram á opinberum vettvangi undanfarið að Reykjavíkurflugvöllur sé á leið úr Vatnsmýrinni. En í hvað er hann að vísa þar? „Meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík er að minnsta kosti með þá afstöðu að Reykjavíkurflugvöllur eigi að fara. Annars værum við ekki að skoða annan valkost. Það væri óábyrgt af fyrirtæki í okkar stöðu að gera það ekki. Það er hins vegar alveg skýrt í mínum huga að starfsemin heldur áfram á Reykjavíkurflugvelli á meðan ekkert liggur fyrir um aðra staðsetningu fyrir innanlandsflugið í samræmi við niðurstöður Rögnunefndarinnar. Þú afleggur ekki Reykjavíkurflugvöll nema hafa skýran valkost um innanlandsflug á Reykjavíkursvæðinu, og það liggja ekki fyrir niðurstöður um hvort það er yfirhöfuð mögulegt að byggja flugvöll í Hvassahrauni.“
TENGDAR GREINAR: VERÐUR HVASSAHRAUNSFLUGVÖLLUR „ICE“?ENGIN RÖK FYRIR ÞVÍ AÐ BYGGJA GRÓÐURHÚS Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI