Baksviðs á rómaðri pizzeríu í Róm

bonci rom

Það eru ófáir sælkerarnir sem hafa fullyrt að bestu pizzur í heimi komi úr eldhúsinu á Bonci Pizzarium í Rómarborg. Hér er skyggnst á bak við tjöldin á þessari marglofuðu pizzeríu.
Hin ítalska flatbaka hefur fyrir löngu sigrað heiminn og hana má kaupa í flestum ef ekki öllum byggðum bólum á Vesturlöndum. Ef ekki nýbakaða þá alla vega frosna í kjörbúðinni. Því miður hefur þessi mikla útbreiðsla gert það að verkum að alltof víða eru pizzurnar bakaðar úr brimsöltu verksmiðjudeigi sem er toppað með ofkryddaðri sósu, bragðlitlu áleggi og tyggjóosti. Afraksturinn er skammarlegur skyndibiti sem á ekki pizzuheitið skilið. Alla vega ekki þegar hann er borinn saman við það sem kemur úr ofnunum á pizzeríunum þar sem fagmenn vinna úr góðu hráefni. Blessunarlega eru þess háttar pizzeríur víða að finna og þar gengur maður frá borðum mettur en ekki með útblásinn maga og sárþyrstur. 
Rómarbúinn Gabriele Bonci er einn þessa metnaðarfullu og pizzurnar hans þykja svo góðar að hann hefur verið kallaður „Michelagelo pizzunnar“ og fullyrt að hvergi séu sneiðarnar betri en á Bonci Pizzarium, skammt frá Vatíkaninu í Róm (Via della Meloria 43). Bonci er ekki veitingahús heldur meira eins og skyndibitastaður þar sem seldar eru sneiðar (kosta um 350kr) og hressing með. Það er opið alla daga frá hálf níu að morgni til hálf níu að kveldi en mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga er lokað frá kl.15 til 17. Hér fyrir neðan má sjá myndband af pizzugerðinni hjá Bonci

– Til höfuðborgar Ítalíu er flogið reglulega frá Íslandi yfir sumarmánuðina, annars vegar á vegum WOW og hins vegar Vueling.