Engar takmarkanir á sölu áfengis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Farþegar á flugvellinum Bergen geta ekki lengur pantað sér vín eða bjór fyrir morgunflug. Barinn á íslensku flugstöðinni opnar hins vegar um miðja nótt.

loksinsbar

Fyrr í sumar ákváðu sveitarstjórnarmenn í Bergen í Noregi að afturkalla þá undanþágu sem ríkt hefur um áfengisveitingar í flugstöðinni við Flesland. Farþegar geta því ekki lengur pantað sér áfengi á flugvallarbörunum fyrir klukkan átta líkt og á gengur og gerist á öðrum vínveitingahúsum í Bergen og nágrenni. Áður mátti opna barina á Flesland klukkan sex að morgni og hafa þessar hertu reglur hafa mælst illa fyrir hjá farþegum á næst stærsta flugvelli Norðmanna líkt og Túristi greindi frá.

Ölvun farþega ekki vandamál

Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru reglur um sölu áfengis mun sveigjanlegri en í Bergen því að sögn Guðna Sigurðssonar, talsmanns Isavia, eru engar tímatakmarkanir á vínveitingum í húsinu. Guðni bætir við að ölvun hafi ekki verið vandamál á flugvellinum og undir það tekur Sig­urður Skag­fjörð Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri Lag­ar­dère, sem rekur Loksins bar. Sigurður segir að engin teljanleg vandræði hafa skapast vegna drykkju í Leifstöð og séu atvikin teljandi á fingrum annarrar handar.

Lítið selst af sterku áfengi

Loksins bar opnar milli 4 og 5 á morgnana og lokar vanalega á miðnætti en suma daga er opið til klukkan eitt og helgast þessi langi opnunartími af aukinni umferð um Keflavíkurflugvöll. Sigurður segir gesti barsins helst panta bjór og léttvín en lítið seljist hins vegar af sterku áfengi. Aðspurður um hvort margir farþegar kaupi sér áfenga drykki fyrir morgunflug segir Sigurður að bjór seljist á öllum tímum en mun minna á morgnanna en meira þegar líður á daginn.
TENGDAR GREINAR: BJÓRBARINN Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI MEÐAL ÞEIRRA BESTU