Fargjöld allra til Kaupmannahafnar og London lækka

Þeir sem bóka í dag far til höfuðborga Danmerkur og Bretlands eftir fjórar og tólf vikur borga minna en þeir sem voru í sömu sporum fyrir ári síðan. Farmiðar til Óslóar standa í stað.

london David Dibert

Fjögur flugfélög munu fljúga daglega héðan til Lundúna frá og með lokum október og þessi aukni ferðafjöldi virðist hafa áhrif á farmiðaverðið því lægstu fargjöld þessara flugfélaga í byrjun nóvember eru í dag lægri en þau voru á sama tíma í fyrra.

Hjá easyJet kostar ódýrasti miðinn rúmar 16 þúsund, báðar leiðir, en var 10 þúsund krónum dýrari í fyrra. Lækkunin er jafn mikil hjá British Airways og Icelandair en hjá WOW hefur ódýrasta farið lækkað um 4 þúsund krónur eins og sjá má á neðra súluritinu hér fyrir neðan.

Flugsætin til bresku höfuðborgarinnar í annarri viku september eru ögn ódýrari en í fyrra og til Kaupmannahafnar má einnig komast fyrir minna núna en á sama tíma síðustu fimm ár. Farið til Óslóar kostar hins vegar álíka og í fyrra samkvæmt þessum mánaðarlegu verðkönnunum Túrista sem framkvæmdar hafa verið frá árinu 2012.