Ferða­manna­strauminn sendur á þá óskráðu og ólög­legu

clive turisti is

Clive Stacey hefur skipu­lagt Íslands­ferðir í 44 ár og er ennþá mjög stór­tækur á því sviði. Hann er hins vegar ekki ánægður með stöðu íslensku ferða­þjón­ust­unnar í dag. Clive Stacey hefur skipu­lagt Íslands­ferðir í 44 ár og er ennþá mjög stór­tækur á því sviði. Hann er hins vegar ekki ánægður með stöðu íslensku ferða­þjón­ust­unnar í dag.
Undan­farið hefur viðtal sem Túristi tók við Clive Stacey, fram­kvæmda­stjóra ferða­skrif­stof­unnar Discover the World, síðast­liðið sumar farið víða á Face­book. Þar full­yrti hann m.a. að ferða­þjón­ustan, sérstak­lega á höfuð­borg­ar­svæðinu, einkenndist af massa­t­úr­isma þar sem ferða­fólk væri afvega­leitt og seldar ferðir sem stæðu ekki undir vænt­ingum. Vegna hinnar miklu athygli sem þetta ársgamla hefur fengið síðustu vikur þá liggur beint við að spyrja Stacey hvort honum þyki ástandið hafa batnað frá því í fyrra? „Ég myndi segja að mann­mergð við vinsæl­ustu ferða­mannastaðina sé ennþá meira vandamál í dag en fyrir ári síðan. Hvort að þeir sem halda um stjórntaumana, hverjir sem það nú eru, hafi gert eitt­hvað í málunum er erfitt að segja en við fáum fleiri kvart­anir varð­andi þetta atriði núna en áður. Það á líka við um Flug­stöð Leifs Eiríks­sonar en þar eru greini­lega alltof margir farþegar saman­komnir á nokkrum dagspörtum, en hvort það sé óhóf­legt, miðað við alla flug­um­ferðina, er erfitt að segja.”

Landið hefur fengið þá athygli sem það á skilið

„Ég hóf að skipu­leggja ferðir til Íslands árið 1972 og hef einbeitt mér að íslenskri ferða­þjón­ustu allar götur síðan og stofnaði mína eigin ferða­skrif­stofu árið 1984 sem er núna stærsti einstaki ferða­skipu­leggj­andi Íslands­ferða í öllum heim­inum. Þó ég sé mjög ánægður með að Ísland njóti nú verð­skuld­aðrar athygli sem mikil­feng­legur áfanga­staður þá hef ég miklar áhyggjur af stefnu­leysi í hvernig á að gera gestum kleift að upplifa til hins ýtrasta alls þess einstaka sem landið hefur upp á að bjóða. Ef þú vilt að ferða­fólk njóti fyrstu og síðustu kynna sinna af landinu þá verður að bjóða upp á flug­höfn sem getur tekið á móti öllum fjöld­anum. Ef þú vilt að fólk meti helsti ferða­mannastaði landsins þá verður að hafa stjórn á þeim fjölda sem þangað kemur. Og ef þú lofar fólki víðáttu þá máttu ekki bara leyfa þúsundum manna að streyma inn á viðkvæm svæði sem þola ekki svona mikinn ágang. Með öðrum orðum þá verður að setja reglur til að vernda þessi verð­mæti og hið verð­mæta vörumerki Iceland,” segir Stacey og bæti því við að mikið hafi verið rætt um hvernig eigi að taka á ferða­manna­straumnum en lítið hafi verið gert að hans mati. „Ríkis­stjórn Íslands verður að ráðast í aðgerðir og vinna með öllu hags­muna­að­ilum í að búa til almenni­legt skipulag sem gerir ferða­fólki mögu­legt að njóta íslenskrar náttúru og þétt­býlis án þess þó að skerða lífs­gæði íbúanna sjálfra.”

Tæki­færissinn­arnir hagnast

Í fyrra varstu á þeirri skoðun að fyrir breska ferða­menn væru lág flug­far­gjöld orðin eitt aðal adrátt­ar­aflið við Ísland og samkvæmt nýrri könnun einnar stærstu flug­bók­un­ar­síðu heims þá lækkuðu farmiðar milli Íslands og Bret­lands um helming í vor og sumar. Hver er skýr­ingin á lækk­andi farmiða­verði að þínu mati? „Það eru svo mörg flug­félög að fljúga til Íslands að þau verða að lækka fargjöldin til að fylla vélarnar. Á sama tíma eru hótelin full­bókuð mestan hluta ársins og því verður fólk að notast við Airbnb sem gerir búsetu í miðborg Reykja­víkur dýrari fyrir íbúana. Og bíla­leigu­fyr­ir­tækin hagnast varla því það eru svo margir aðilar sem starfa ólög­lega á þeim markaði og sambærileg staða virðist vera á mörgum öðrum sviðum í íslenskri ferða­þjón­ustu. Eins og ég les í stöðuna þá er stórum hluta af þessari viðbót­artraffík til Íslands eigin­lega troðið inn á þessar óskráðu þjón­ustur sem engar reglur gilda um. Þetta gagnast ekki neinum nema tæki­færis­sinn­unum sem venju­lega þéna mest, en með litlum ábata, vegna þess að gest­irnir eru féflettir og á sama tíma fær íslensk ferða­þjón­usta á sig slæmt orð. Ég átta mig á að þetta eru stór orð en ég tel mjög mikil­vægt að það verði komið á skipu­lagi til að takast á við þetta mikla innstreymi án þess þó að eyði­leggja helstu ástæður þess að fólk elskar að koma til Íslands.”