Fljúga áfram tómum farþegaþotum milli Íslands og Japan

tokyo Louis Kang

Annað haustið í röð tókst forsvarsmönnum flugfélagsins JAL ekki að koma í sölu flugsætum hér á landi. Utanríkisráðherra vill hins vegar koma á loftferðasamningi milli landanna tveggja Annað haustið í röð tókst forsvarsmönnum flugfélagsins JAL ekki að koma í sölu flugsætum hér á landi.
Fimmta árið í röð mun japanska flugfélagið JAL bjóða upp á stakar ferðir til Íslands frá Tókýó og Osaka nú í september. Í fyrstu ferðinni frá Japan fljúga vélarnar hingað með farþega en snúa við tómar og koma svo aftur til landsins án nokkurra farþega til að sækja japönsku ferðamennina viku síður. Forsvarsmenn JAL hafa síðustu tvö ár reynt að koma sætunum í sölu hér á landi til að þurfa ekki að fljúga tómum vélum alla leið frá Japan til Íslands en flugtíminn er á bilinu 11 til 12 tímar. Viðræður Japanana við íslenska ferðaskipuleggjendur hafa hins vegar ekki skilað árangri samkvæmt svari sölustjóra JAL til Túrista. Þar kemur jafnframt fram að Japansferðirnar til Íslands í ár verði tvær en ekki fjórar, eins og í fyrra, en sæti eru fyrir 235 farþega í Boeing þotunum sem nýttar verða í þetta haustflug hingað frá Tokýó og Osaka.

Utanríkisráðherra vill loftferðasamning

Hingað til hefur beint flug milli Íslands og Japan takmarkast við þessar stöku haustferðir JAL en ekki er í gildi loftferðasamningur milli landanna tveggja. Í vikunni var hins vegar möguleg gerð þess háttar samnings til umræðu á Alþingi að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar, fyrrum utanríkisráðherra. Í svari núverandi ráðherra utanríkismála, Lilju Alfreðsdóttur, kom fram að íslenskir ráðamenn hafi um árabil kallað eftir umræðu um gerð loftferðasamnings milli landanna en það boð hafi ávallt verið afþakkað. „Almennt meta japönsk stjórnvöld stöðuna þannig að ekki sé nægileg eftirspurn í Japan eftir gerð loftferðasamnings. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar reglulega bent á aukningu í fjölda japanskra ferðamanna, en fjöldi þeirra hefur vaxið úr um 3.000 árið 2002 í um 17.000 árið 2015, sem er um það bil 80% aukning“, bætti utanríkisráðherra svo við. Þess ber þó að geta að miðað við þessar tölur hefur fjöldi japanska ferðamanna hér á landi nærri því sexfaldast frá árinu 2002 en ekki aukist um áttatíu af hundraði líkt og kom fram í svari utanríkisráðherra. Í ár hefur aukningin haldið áfram og fjórðungi fleiri Japanir heimsótt Ísland nú en fyrstu sjö mánuðina í fyrra eða ríflega 10 þúsund..

Millilending eini kosturinn

Íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air hafa bæði í ár bætt við flugflota sína þotum sem eru nógu langdrægar til að geta flogið til Asíu en ennþá hefur hvorugt félagið gefið út nein áform um flug til Asíu. Í staðinn einbeita þau sér að áætlunarferðum yfir Atlantshafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli og asísk flugfélög hafa heldur ekki boðað komu sína til Íslands. Áfram lítur því út fyrir að farþegar á leið héðan til Asíu og öfugt þurfi að millilenda í Evrópu á leið sinni. Markaðurinn fyrir Íslandsferðir í Asíu hefur hins vegar stækkað mjög og til að mynda kom það fram í viðtali Túrista við framkvæmdastjóra Lufthansa, stærsta flugfélags Þýskalands, að mikil eftirspurn var eftir Íslandsflugi félagsins í Kína hafi komið á óvart. Í vikunni gaf Finnair það svo út að næsta vor myndi félagið hefja áætlunarflug til Íslands frá Helsinki en þetta stærsta flugfélag Finnlands er mjög stórtækt í Austurlöndum fjær og koma þess mun því líklega auka enn á ferðamannafjöldanna frá Kína, Japan og S-Kóreu.
SMELLTU HÉR TIL AÐ BERA SAMAN FLUGVERÐ TIL TOKYO