Íslendingar og Svíar höfðu sætaskipti í flugvélunum í sumarbyrjun

stokkholmur djurgarden

Síðustu mánuði hefur íslenskum hótelgestum í Svíþjóð fækkað en á sama tíma fjölgar Svíum hér á landi á ný. Síðustu mánuði hefur íslenskum hótelgestum í Svíþjóð fækkað en á sama tíma fjölgar Svíum hér á landi á ný.
Fjöldi norrænna ferðamanna hér á landi stóð í stað í fyrra en á sama tíma fjölgaði túristum almennt um 30 prósent. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs er fjöldi danskra og norskra ferðalanga óbreyttur frá því í fyrra á meðan fjórðungi fleiri Svíar hafa heimsótt landið og ríflega fimmtungi fleiri Finnar.
Hjá Svíunum má rekja breytinguna til mun fleiri ferða hingað í vor og sumar því á fyrsta fjórðungi ársins voru sænsku ferðamennirnir hér álíka margir og þeir voru fyrstu þrjá mánuðina í fyrra.

Flugferðum fjölgar og ferðamönnum líka

Líkleg skýring á þessum viðsnúningi í vor er sú að í maí hóf WOW air að fljúga til Västerås flugvallar, 100 kílómetrum norðvestur af Stokkhólmi, en fram að því var Icelandair eina félagið með áætlunarflug til Svíþjóðar. Þotur Icelandair fljúga eina til þrjár ferðir á dag til Arlanda flugvallar við Stokkhólm og frá vori og fram á haust til Gautaborgar. Ástæðan fyrir þessari fjölgun Íslandsferða frá Svíþjóð kann líka að liggja í auknum flugsamgöngur milli Íslands og Kaupmannahafnar í ár enda er flugvöllurinn við Kastrup í seilingarfjarlægð fyrir marga íbúa á Skáni, syðsta hluta Svíþjóðar.

Miklu færri Íslendingar í Stokkhólmi

En á sama tíma og sænskum ferðamönnum fjölgar hratt hér á landi þá draga Íslendingar úr heimsóknum sínum til Svíþjóðar. Alla vega þegar litið er til fjölda íslenskra hótelgesta í Svíþjóð en ekki eru til opinberar tölur um íslenska flugfarþega í Svíþjóð. Sérstaklega hefur reisum okkar til Stokkhólms fækkað en í júní sl. keyptu Íslendingar til dæmis nærri sextán hundruð færri gistinætur á hótelum borgarinnar og nemur samdrátturinn 57 prósentum samkvæmt tölum sænsku hagstofunnar. Sænskum gestum á hótelum í Reykjavík og nágrenni fjölgaði hins vegar um 2.507 eða 34,5 prósent. Sveiflurnar eru því í sitthvora áttina síðustu mánuði en þess ber þó að geta að í fyrra þá keyptu Íslendingar tvöfalt fleiri gistingar í Stokkhólmi í samanburði við árið 2014.

WOW færir sig til Arlanda

Fjölmargar Frakklandsferðir Íslendinga í júní gætu verið ein ástæða þess að íslenskum ferðamönnum í Svíþjóð fækkaði í sumarbyrjun en reyndar fjölgaði íslenskum hótelgestum í Kaupmannahöfn í júní sl. þannig að sigurganga Íslendinga á EM skýrir líklega ekki þessar miklu sveiflur. Hver þróunin verður næstu mánuði er erfitt að segja til um en sænska krónan hefur lækkað umtalsvert í samanburði við þá íslensku og Svíþjóðardvöl því ódýrari kostur fyrir íslenska launþega í dag en til að mynda fyrir ári síðan. Nýverið tilkynntu svo forsvarsmenn WOW air að frá og með byrjun nóvember myndi þotur félagsins lenda við Arlanda flugvöll en ekki í Västerås og það eru jákvæð tíðindi fyrir íslenska túrista því ferðalagið frá Arlanda og inn til Stokkhólms er mun þægilegra en frá Västerås. WOW mun fljúga fjórar ferðir í viku og þar með fær Icelandair samkeppni á Arlanda á ný en SAS spreytti sig á flugi milli Stokkhólms og Íslands sumarið 2012. Það er hins vegar ekki útilokað að SAS taki upp þráðinn því líkt og kom fram í viðtali Túrista við einn af stjórnendum SAS þá liggur beint við að félagið bjóði einnig upp á Íslandsflug frá Stokkhólmi líkt og félagið gerir í Ósló og Kaupmannahöfn.

Yfir sumarið og um helgar býður Arlanda Express ódýrari lestarmiða milli Arlanda flugvallar og Stokkhólms. Sjá hér.