Tímataflan fyrir áætlunarflug milli Íslands og London í vetur

Í vetur geturðu valið á milli allt að 12 ferða á dag milli Íslands til Lundúna. Hér sérðu hvernig brottfarir og heimferðir, til og frá London, raðast frá morgni til kvölds Í vetur geturðu valið á milli allt að 12 ferða á dag milli Íslands til Lundúna. Hér sérðu hvernig brottfarir og heimferðir, til og frá London, raðast frá morgni til kvölds.
Fimm flugfélög munu í allan vetur halda uppi flugsamgöngum milli Íslands og flugvallanna við höfuðborg Bretlands. Aldrei áður hefur samkeppni á einni flugleið frá Íslandi verið jafn mikil og til samanburðar má nefna að frá Óslóarflugvelli og Arlanda í Stokkhólmi bjóða þrjú flugfélög upp á áætlunarferðir til London en í Kaupmannahöfn eru félögin í Lundúnarfluginu fimm líkt og hér á landi.
Reyndar eru ferðirnar frá hinum flugvöllunum nokkru fleiri en frá Keflavíkurflugvelli eða um 20 á dag á meðan ferðirnar verða flestar 12 á dag frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vöxturinn hefur reyndar verið mjög hraður því í febrúar 2012, þegar aðeins Iceland Express og Icelandair flugu á þessari leið, voru ferðirnar að jafnaði 2,7 á dag en fimm árum síðar er meðaltalið 9,6. Flestar eru ferðirnar á fimmtudögum. 

Dreifist á fjóra breska flugvelli

Lengi vel létu forsvarsmenn Icelandair nægja að fljúga tvisvar sinnum á dag til Heathrow flugvallar en félagið bætti við ferðum til Gatwick flugvallar fyrir fjórum árum síðan. Þangað hefur WOW air einnig flogið allt frá því að félagið hóf starfsemi í sumarbyrjun 2012 en tveimur mánuðum fyrr fór easyJet jómfrúarflug sitt hingað frá Luton flugvelli sem einnig telst til Lundúna. Þetta stærsta lággjaldaflugfélag Bretlands hefur síðan stóraukið flug sitt hingað og bætt við ferðum frá flughöfnunum Gatwick og Stansted sem báðar eru í útjaðri Lundúna. British Airways slóst í hópinn síðastliðið haust með þremur ferðum á viku hingað frá Heathrow og frá og með lokum október munu vélar félagsins fljúga hingað daglega.
Í síðustu viku hófst svo sala á Lundúnarflugi Norwegian og notast félagið líka við Gatwick en sú flughöfn er orðin aðalsamgönguæðin fyrir Íslandsflug í Bretlandi. Flugu nærri 313 þúsund farþegar á milli Íslands og Gatwick í fyrra en um 240 þúsund til og frá Heathrow en þessi fjölfarnasta flughöfn Evrópu var fram til 2014 helsta miðstöðin fyrir flug til Íslands frá Bretlandseyjum.

Þau íslensku sitja ein að morgunfluginu

Umferðin milli Íslands og Lundúna hefst á hverjum morgni klukkan rétt rúmlega sex með fyrri ferð WOW air og á sama tíma leggja vélar Norwegian og easyJet í hann frá bresku höfuðborginni en yfir vetrarmánuðina er enginn munur á tímanum hér og á Bretlandseyjum. Rétt fyrir átta er komið að Icelandair og íslensku félögin eru því einn um morgunflugið héðan og á því verður ekki breyting nema erlendu félögin byrji að fljúga hingað að kveldi og láti svo þotur sínar standa við Leifsstöð yfir nótt til að geta flogið árla dags til Bretlands. Farþegar sem þurfa að vilja nýta daginn í útlöndum kjósa þá líklega að komast í loftið sem fyrst en þeim sem liggur minna á hafa úr meiru að moða eins og sjá má á stundaskránni hér fyrir neðan. Hún sýnir hvernig umferðin dreifist yfir daginn og vikuna og er miðað við áætlun flugfélaganna í lok febrúar en þá nær traffíkin í Lundúnarfluginu hámarki, m.a. vegna skólafría í Bretlandi. Ferðum easyJet, Icelandair og WOW fækkar ögn utan þessa háannatíma.