Henda handklæðum af ónotuðum sólbekkjum

sundlaug bekkir Tim Gouw

Skortur á sólstólum á Mallorca kallar nýjar reglur um hvernig hótelgestir geta tekið frá aðstöðu við sundlaugina. Skortur á sólstólum á Mallorca kallar nýjar reglur um hvernig hótelgestir geta tekið frá aðstöðu við sundlaugina.
Ferðamannastraumurinn hefur legið til spænsku eyjunnar Mallorca í sumar því sólþyrstir Norður-Evrópubúar hafa heldur viljað til Spánar í sumar en til að mynda Tyrklands þar sem ferðamönnum hefur fækkað mjög vegna ástandsins sem þar ríkir. Sundlaugagarðar við spænsk hótel hafa af þessum sökum verið þéttskipaðri en oft áður og á einhverjum gististöðum hefur orðið vart við mikinn skort á sólbekkjum. Ástæðan fyrir þessu er hins vegar ekki aðeins rakin til vanbúnaðar hótelanna heldur þeirrar ríku hefðar gestanna að taka frá sólbekki og sólhlífar árla dags jafnvel þó þeir hyggist ekki nota þá fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Bestu sólstólarnir standa þá ónotaðir við sundlaugarbakkann part úr degi og á meðan verða aðrir hótelgestir að sætta sig við að leggjast á stéttina eða sleikja sólina á ströndinni. 

Veldur pirringi hjá mörgum

Sumstaðar hefur verið reynt að útrýma þessu pöntunarkerfi með því að beina þeim tilmælum til fólks að það haldi ekki stólum nema akkúrat þegar þeir eru í notkun og á einhverjum hótelum má ekki taka dreifa handklæðum yfir sólstóla fyrr en eftir klukkan níu að morgni. Þetta hefur hins vegar dugað skammt og á hótelinu einu á Mallorca hefur sú regla nú verið sett að ef sólbekkur stendur ónotaður í meira en hálftíma þá eru handklæðin fjarlægð af honum og aðrir gestir geta þá komið sér fyrir og notið sólarinnar.
Hvort þetta nýja fyrirkomulag nái útbreiðslu á eftir að koma í ljós en samkvæmt frétt danska blaðsins Politiken þá hefur gamla pöntunarkerfið valdið pirringi meðal sólarlandagesta í marga áratugi og því kannski kominn tími á strangari og skráðar reglur.
TILBOÐSFERÐIR TIL SPÁNARTILBOÐSFERÐIR TIL KRÍTAR