Í fyrsta skipti áætlunarflug til Madrídar yfir vetrarmánuðina

norwegian velar860

Í síðustu viku hófst sala á flugi Norwegian milli Íslands og London og nú hefur norska lággjaldaflugfélagið bætt við beinu flugi til tveggja stærstu borga Spánar. Í síðustu viku hófst sala á flugi Norwegian milli Íslands og London og nú hefur norska lággjaldaflugfélagið bætt við beinu flugi til tveggja stærstu borga Spánar.
Undanfarin ár hefur áætlunarflug héðan til höfuðborgar Spánar takmarkast við nokkrar ferðir á vegum Icelandair yfir hásumarið. Í ár bættist svo við sumarflug á vegum Iberia Express en hlé verður gert á þeim ferðum frá og með byrjun september. Frá hausti og fram á vor hafa farþegar á leið milli Íslands og Madrídar því þurft að millilenda á leið sinni en á því verður nú breyting því þotur norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian munu fljúga hingað frá borginni alla þriðjudaga og laugardaga í vetur eða frá byrjun nóvember og út mars á næsta ári. Sala á farmiðunum var að hefjast.

3 nýjar vetrarleiðir á einni viku

Stjórnendur Norwegian láta ekki þar við sitja því þeir hafa einnig sett í sölu áætlunarferðir hingað frá Barcelona á sama tímabili, nema þá er flogið á miðvikudögum og laugardögum en líkt og Túristi greindi nýverið frá munu Vueling og WOW air einnig fljúga milli höfuðborgar Katalóníu og Keflavíkurflugvallar í vetur. „Við erum mjög ánægð með að geta tilkynnt um tvær nýjar flugleiðir til Íslands, til Barcelona og Madridar. Við teljum að þessar ferðir fái góðar móttökur hjá þeim Íslendingum sem vilja njóta smá sólar yfir vetrarmánuðina. Á sama tíma er það trú okkar að þessar flugleiðir, auk nýja flugsins okkar frá London til Íslands, muni efla íslenska ferðaþjónustu,“ segir Astrid Gaustad Mannion, upplýsingafultrúi Norwegian, í svari til Túrista. En í síðustu viku bætti Norwegian við flugi hingað frá Gatwick í London en síðustu ár hefur félagið aðeins boðið upp á ferði hingað frá Ósló og Bergen.
Samkvæmt lauslegri athugun Túrista þá kosta ódýrustu farmiða Norwegian milli Íslands og Spánar um 18 þúsund krónur, báðar leiðir. Borga þarf aukalega fyrir innritaðan farangur hjá félaginu.