Nú tekur Icelandair við bókunum í gegnum Facebook Messenger

icelandair 767 757

Nú geturðu pantað þér flugmiða með því að senda Icelandair skilaboð á netinu. Nú geturðu pantað þér flugmiða með því að senda Icelandair skilaboð á netinu.
Að kaupa flugmiða verður sífellt minna mál og fjölmargir hafa vafalítið bókað sér ferðalag út í heim með snjallsímanum. Frá og með deginum í dag geta svo þeir nýjungagjörnu pantað næstu flugferð með Icelandair í gegnum Facebook Messenger, skilaboðaþjónustu þessa vinsæla samfélagsmiðils, sem margir eru til að mynda með í símanum sínum.
Með þessari nýju bókunarleið geta farþegar leitað að hentugum flugmiða og svo gengið frá kaupunum með Messenger forritinu og er íslenska flugfélagið eitt af þeim fyrstu í heiminum sem gerir þetta kleift. Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Icelandair, segir að hjá fyrirtækinu sé sífellt unnið að því að betrumbæta upplifun viðskiptavinanna og þessi nýja bókunarleið sé liður í því.
Eins og sjá má á kynningarmyndbandinu hér fyrir neðan þá er þjónustan á ensku og aðallega hugsuð fyrir þá sem vilja bóka sér flug með Icelandair yfir hafið en þó með viðdvöl á Íslandi. Aðrir farþegar geta þó líka nýtt sér hana.