Kaupmannahafnarflugið nær nýjum hæðum

cph amalienborg ty stange

Í júlí voru í fyrsta skipti farnar meira en tvö hundruð áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgar Danmerkur. Í júlí voru í fyrsta skipti farnar meira en tvö hundruð áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgar Danmerkur.
Með tilkomu daglegs áætlunarflugs SAS frá Kaupmannahöfn til Íslands þá hefur flugumferðin á þessari vinsælu flugleið aukist umtalsvert þó bæði Icelandair og WOW air fljúga einnig borgarinnar allt árið um kring. Þotur Icelandair fljúga þangað allt að fimm sinnum á dag en WOW daglega. Hingað til hefur umferðin hins vegar ekki verið eins mikil og hún var í síðasta mánuði þegar ferðirnar voru samtals 204 samkvæmt talningu Túrista. Aldrei áður hafa flugferðirnar verið svona margar í einum mánuði frá því að Túristi hóf talningu á flugi frá Keflavíkurflugvelli fyrir um fimm árum síðan. 

Tvöfalt fleiri ferðir til Minneapolis

Í heildina fjölgaði brottförunum til Kaupmannahafnar um fjórðung frá því í júlí í fyrra en eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá jókst umferðin í síðasta mánuði á öllum þeim flugleiðum sem eru á listanum yfir þær vinsælustu frá Keflavíkurflugvelli. Til að mynda tvöfaldaðist ferðafjöldinn til Minneapolis en þangað flýgur nú Delta í samkeppni við Icelandair. Ferðirnar til Toronto, fjölmennustu borgar Kanada, voru líka mun fleiri enda flýgur nú WOW þangað líka en áður sat Icelandair eitt að Kanadafluginu. Íslensku félögin hófu svo bæði áætlunarflug til Montreal í frönskumælandi hluta landsins á sama tíma í maí sl.

London ekki verið neðar

Fjögur flugfélög bjóða upp á reglulegt flug milli Íslands og flugvallanna við Lundúnir. Vegna þessarar miklu umferðar þá er London vanalega í fyrsta sætinu á listanum yfir þá áfangastaði sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli. Yfir hásumarið hefur Kaupmannahöfn hins vegar náð fyrsta sætinu og London þá farið niður í annað sæti. Aukaferðir WOW og Icelandair til Parísar í kringum leik Íslendinga og Frakka í byrjun mánaðar tryggðu frönsku borginni hins vegar annað sætið á listanum í júlí með naumindum.