Langflestir farþegar panta gin og tónik

ba gin

Enginn áfengur drykkur kemst með tærnar þar sem sá grái er með hælana þegar kemur að hressingu í háloftunum.
Árlega eru serveraðar ríflega tvær milljónir blanda af gin og tónik um borð í vélum British Airways og enginn annar áfengur drykkur nýtur álíka vinsælda meðal farþega breska flugfélagsins. Reyndar eru bornar fram hátt í 10 milljónir lítilla vínflaska í þotunum á hverju ári, 1,3 milljónir af flöskum í fullri stærð en kampavínsflöskurnar eru helmingi færri samkvæmt tilkynningu frá BA. Athygli vekur að bjórdrykkja er ekki talin með í samanburðinum sem segir kannski ýmislegt um hversdagslegt viðhorf Breta til ölsins.

Mest drukkið á leið til Vegas

British Airways hóf á ný að fljúga til Íslands síðasta haust en þá aðeins þrisvar í viku frá Heathrow í London. Frá og með lokum október munu vélar BA hins vegar fljúga daglega til Keflavíkurflugvallar. Áfengisdrykkja í Íslandsfluginu er hins vegar ekki fréttnæm en öðru máli gegnir um stemninguna í vélum British Airways sem fljúga til og frá spílavítunum í Las Vegas. Á þeirri flugleið er nefnilega langmest drukkið hjá BA en á öðrum leiðum mun drykkjan hins vegar vera nokkuð svipuð. Það skiptir hins vegar máli hvenær sólarhringsins fólk er í háloftunum því meira er drukkið yfir daginn en til að mynda í næturflugi.

Bragðlaukarnar brenglast

Það hefur verið sýnt fram á að bragðskyn fólks breytist í flugi m.a. vegna hæðarinnar og hávaðans og af þeim sökum hafa matgæðingar British Airways útbúið flugvélamat þar sem mikil áhersla er lögð á hráefni sem inniheldur mikið „umami“, t.a.m. tómata, sveppi og parmesan ost. Vínið um borð þarf líka að velja með þetta í huga og til að mynda er rauðvínið hjá BA oftast kröftugt og hvítvínin súr því í háloftunum slær á þessa eiginlega vínsins. Að lokum leggur vínsérfræðingur breska flugfélagsins áherslu á að fólk hafi það í huga að flugferðalög og áfengi eigi það sameiginlegt að valda vatnsþurrki. Því sé mikilvægt að drekka hóflega af áfengi en í staðinn innbyrða töluvert af vatni og óáfengum drykkjum.