Leikið á Trump í Skotlandi

trump golf aberdeen

Lækkandi pund gerir vallargjaldið hjá forsetjaframbjóðandanum ögn viðráðanlegri fyrir hinn hefðbundna kylfing. Forsetaframbjóðandinn umtalaði lét byggja upp einn þekktasta golfvöllinn á austurströnd Skotlands. Lækkandi pund gerir vallargjaldið ögn viðráðanlegri fyrir hinn hefðbundna kylfing.
Skotar segjast hafa spilað golf lengur en nokkur önnur þjóð eða í hvorki meira né minna en sex aldir og í heimalandi þessarar vinsælu íþróttar eru að finna um 550 velli. Sá sem kenndur er við St. Andrews er sennilega þeirra þekktastur en síðustu ár hefur hins vegar nýlegur strandvöllur bandaríska forsetaframbjóðandans Donalds J. Trump, rétt fyrir norðan Aberdeen, fengið einna mesta athygli í golfpressunni. Vissulega skrifast hluti af sviðsljósinu á hinn yfirlýsingaglaða eiganda sem hefur meðal annars hótað að hætta uppbyggingu við golfvöllinn ef reistar verða vindmyllur við strandlengjuna og eins á hann í erjum við nokkra íbúa svæðisins. 
Það virðist hins vegar vera óumdeilt að völlurinn sjálfur, Trump International Golf Links, er framúrskarandi „links völlur“ og hefur hann hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga síðustu misseri. Hann er lengstur 6.700 metrar og liggja brautirnar milli sandhólanna við hina fallegu strandlengju í Aberdeenskíri og á hverri þeirra eru sex teigar til að auðvelda sem flestum kylfingum að spreyta sig á vellinum.

Veikt pund kemur til bjargar

Það er nefnilega mikilvægt fyrir reksturinn að sem flestir geti komið og spilað en það kostar vissulega sitt. Yfir sumarið kosta 18 holur til að mynda rúmar 34 þúsund krónur en í apríl og október er gjaldið 26 þúsund. Og kannski verður hringurinn hjá Trump ekki mikið ódýrari en þetta, alla vega ekki í íslenskum krónum talið, því breska pundið er óvenjulágt um þessar mundir og til að mynda var vallargjaldið um 11 þúsund krónum hærra síðastliðið sumar. 
Icelandair flýgur nú fjórum sinnum í viku til Aberdeen en frá flugvellinum tekur aðeins um 20 mínútur að keyra að glæsilegum golfskála og hóteli Trump. Þeir sem bóka fimm stjörnu gistinguna sem þar er í boði þurfa ekki að borga alveg eins há vallargjöld.
Ferðaskrifstofan GB-ferðir býður upp á golfferðir til Skotlands þar sem m.a. er spilað á Trump International. Hér fyrir neðan er kynningarmyndband ferðaskrifstofunnar um völlinn fræga.

Trump International, Aberdeen from GB Ferðir / GB Travel on Vimeo.