Mikill munur á helgarfargjöldunum til New York

Icelandair er ekki lengur eina flugfélagið sem býður upp á áætlunarferðir milli Íslands og New York yfir vetrarmánuðina því núna munu líka Delta og WOW fljúga þessa leið. Farmiðaverð félaganna er hins vegar mjög ólíkt.

newyork loft Troy Jarrell

Síðustu vetur hafa þotur Icelandair flogið eina til tvær ferðir á dag til flugvallanna JFK og Newark og fleiri hafa áætlunarferðirnar til New York ekki verið í skammdeginu. Í ár hóf hið bandaríska Delta Air Lines reyndar vertíð sína hér á landi í febrúar en árin á undan hafði Íslandsflug félagsins einskorðast við sumarmánuðina. Þá eykst umferðin og nú í sumar hafa Icelandair og Delta samanlagt boðið upp á fjórar ferðir á dag milli Íslands og New York. Í vetur verða daglegar ferðir álíka margar og þær hafa verið síðustu mánuði því nú mun Delta fljúga allt árið til Íslands frá heimahöfn sinni á JFK og í lok nóvember fer WOW air jómfrúarferð sína til Newark í New Jersey. Ferðir Delta verða fjórar í viku en WOW fer leiðina daglega líkt og Icelandair.

Ódýrara að fara í desember en nóvember

Samkeppnin í fluginu til New York verður því miklu meiri næstu mánuði en nokkurn tíma áður og því forvitnilegt að fylgjast með þróun fargjalda á þessari leið næstu misseri. Til að mynda í kringum helgar en öll þrjú félögin munu bjóða upp á ferðir héðan á föstudögum og heim frá New York á mánudögum. Munurinn á fargjöldum félaganna á þessum vikudögum í lok árs er hins vegar töluverður eins og nýjasta verðkönnun Túrista leiðir í ljós. Í nóvember bíður Icelandair nokkru ódýrari miða en Delta en eftir að WOW slæst í hópinn þá er það félag með lægstu fargjöldin. Og reyndar lækkar þá líka verðið hjá Delta og Icelandair. Það er s.s. ódýrara að fljúga til New York yfir helgi í desember en í nóvember eins og staðan er í dag. Þess ber að geta að farangursgjaldi er bætt við farmiðaverðið hjá WOW en farþegar Icelandair fá að taka með sér tvær töskur án viðbótarkostnaðar.